Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki óeðlilegt að útlendingum sé sagt upp

16.06.2019 - 19:18
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir ekki óeðlilegt að uppsagnir vegna samdráttar í efnahagslífinu bitni helst á erlendum ríkisborgurum. Líklegt sé að það fólk vilji vera hér áfram í atvinnuleit.

Atvinnuleysi hefur aukist síðustu mánuði og kemur að öllum líkindum til með að aukast áfram. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir samdrátt í efnahagslífinu áhyggjuefni fyrir fyrirtæki.  Þetta komi þó harðar niður á fyrirtækjum á landsbyggðinni. 

„Mörg fyrirtæki eru að verða fyrir miklum samdrætti í eftirspurn og þurfa að grípa til aðgerða," segir Hannes. Samdrátturinn sé heilt yfir ekki mikill heldur eðlileg afleiðing uppsveiflu síðustu ára og aðlögun að mikilli fjölgun ferðamanna.

500-600 starfa fækkun næstu mánuði

Hannes segist ekki reikna með mikilli fjölgun í uppsögnum en það liggi fyrir að takturinn í uppsögnum á hinum almenna markaði er sirka hálft prósent af störfum. Fram komi í könnun Samtaka atvinnulífsins og Seðlabankans að spáð er 500-600 starfa fækkun á næstu sex mánuðum.

36% allra á atvinnuleysiskrá útlendingar. Hannes segir uppsagnir vegna samdráttarins líta út fyrir að bitna fyrst og fremst á þeirra störfum.

„Fjölgunin hefur verið mest í ferðaþjónustu og byggingariðnaði, hún hefur verið nánast algerlega mönnuð með útlendingum og það er þá kannski ekki óeðlilegt að þeir sem komi síðastir inn þeir fari fyrstir út," segir Hannes.

Þá segir hann reynsluna sýna að líklegt er að þeir erlendu ríkisborgarar sem misst hafi vinnuna verði hér á landi áfram. Eftir bankahrunið 2008 hafi aðflutningur erlendra starfsmanna verið mjög mikill árin á undan, og eftir að uppsagnir náðu hámarki hafi erlendum starfsmönnum fækkað hlutfallslega lítið.  

„Þannig að ég met það þannig að þeir sem hafi unnið hér um hríð og misst atvinnu vilji bíða og sjá og þreyja þorrann og góuna og sjá hvort úr rætist," segir Hannes.

 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður