Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki minni sól í Reykjavík í 100 ár

01.07.2018 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Allt bendir til þess að ekki hafi verið minni sól í Reykjavík í 100 ár að sögn Elínar Bjarkar Jónasdóttur veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Á sama tíma hefur verið mun hlýrra á austan og norðanverðu landinu. 

Sólarleysismet hefur verið slegið í Reykjavík í júní. Sólskinsstundirnar voru 70,6 sem er 37% af því sem hefur verið að meðaltali síðustu 10 ár en tæplega 50% sé miðað við árið 1961-1990. Reykjavík var 1,6 gráðum undir meðalhita síðustu 10 ára og hámarkið náði ekki nema rúmum 13 gráðum.

Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur á veðurstofu íslands segir að það sé ekkert eitt sem skýri þetta. “Það bendir allt til þess að þetta sé minnsta sól í Reykjavík í júní í 100 ár. Það er ekkert eitt sem veldur þessu en það er til dæmis búið að vera óvenjulegt ástand í háloftunum og þessi þotustraumur sem skiptir okkur öllu máli er bara á vitlausum stað miðað við það sem við erum vön og dælir hérna yfir okkur lægðum og svo þessi háþrýstisvæði sem hafa valdið þessum hitabylgjum í sunnanverðri Skandinavíu og Bretlandseyjum þau stöðva allan framgang lægða til þeirra þannig þau lenda yfir okkur. Svo er líka mjög kaldur sjórinn hérna sunnan eða suðvestan við Ísland.“

Í júní mánuði hefur hiti verið markvert ofan meðallags fyrir norðan og austan. Akureyri var 1 gráðu hærri en síðustu 10 ár og Dalatangi 1,5 gráðum yfir meðallagi. Hæsti hiti mánaðarins var 24.3 gráður í Ásbyrgi þann 29. júní.

Ýmsar hræringar eru í kortunum á næstu vikum en ekki er að sjá að það létti mikið til á suðvesturhorninu. „Það er rosalega erfitt að segja vegna þess að nú tóku spárnar upp á því í gær að breytast mjög mikið eftir að hafa verið mjög stöðugar síðustu tvær vikur. Það var spáð mjög miklum hlýindum á austanverðu landinu sem snerist síðan í bara kulda þannig það gæti alveg verið að það létti svolítið til og sjáist til sólar hérna á suðvesturhluta landsins um miðja vikuna en það ekki að sjá einhverja breytingu þar sem við fáum alltieinu hlýtt loft yfir landið og það verður heiðskírt á öllu landinu það er ekkert slíkt í kortunum.“ segir Elín. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV