Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki marktækur munur á Andra og Davíð

15.06.2016 - 17:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Th. Jóhannesson nýtur afgerandi stuðnings til embættis forseta Íslands samkvæmt nýrri könnun Gallup, sem var gerð dagana 8. til 15. júní. Fylgi Guðna mælist nú 51 prósent, samanborið við 56,7 prósent í fyrri könnun Gallup. Davíð Oddsson mælist með 16,4 prósenta fylgi, meðan Andri Snær Magnason mælist með 15,5 prósenta stuðning. Ekki er marktækur munur á fylgi þeirra tveggja þar sem vikmörk eru í báðum tilvikum 1,9 prósentustig.

Halla Tómasdóttir mælist með 12,5 prósenta fylgi, Sturla Jónsson með 2,7 prósent, Elísabet Jökulsdóttir með 1,1 prósent, Ástþór Magnússon með 0,5 prósent, Guðrún Margrét Pálsdóttir með 0,3 prósent og 0,2 prósent styðja Hildi Þórðardóttur.

Úrtak könnunarinnar var 2819 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, valdir af handahófi úr viðhorfahópi Gallup. Þátttökuhlutfall var 57,1 prósent en 1610 svöruðu könnunni. Þar af var 3,1 prósent sem ætlaði ýmist ekki að kjósa eða skila auðu. Rösk 7 prósent þeirra sem svöruðu vildu ekki taka afstöðu.

Sé litið til seinustu könnunar Gallup, sem framkvæmd var 26. maí til 3. júní, þá er helsta breytingin sú að Guðni tapar tæplega sex prósentustigum. Hlutfallslega tapar þó Davíð meira fylgi. Hann mælist nú með tæplega 4 prósentustigum minna fylgi. Bæði Andri Snær og Halla bæta við sig 5 prósentustigum á milli kannanna. Utan Elísabetar, sem bætir við sig 0,7 prósentustigum, eru aðrir frambjóðendur á svipuðu reiki og áður.

Talsverður munur á fylgi eftir hópum

Tveir frambjóðendur skera sig úr hvað varðar fylgi eftir kyni, Davíð og Halla. Alls ætla 22 prósent karla að kjósa Davíð en einungis 11 prósent kvenna. Halla mælist með næstmest fylgi meðal kvenna, 18 prósent  þeirra ætla að kjósa hana. Hún er þó öllu óvinsælli meðal karla en 8 prósent þeirra ætla að kjósa Höllu.

Hvað varðar fylgi eftir aldri þá má greina tvo meginstrauma þar. Guðni og Davíð verða vinsælli eftir því sem fólk er eldra en því er öfugt farið í tilfellum Andra og Höllu. Guðni mælist með 59 prósenta fylgi hjá þeim sem eru eldri en 65 ára. Hlutfallið er 46 prósent meðal þeirra sem eru 18 til 24 ára. Þessi munur er þó meira afgerandi á meðal stuðningsmanna Davíðs. Hann mælist með 8 prósenta fylgi meðal þeirra sem eru yngri 25 ára. Fylgi hans er 26 prósent hjá þeim sem eru eldri en 65 ára. Andri Snær er næst vinsælasti frambjóðandi þeirra sem eru yngri 44 ára. Hann nýtur þó einungis stuðnings 7 prósenta eldri borgara.

Búseta hefur ekki mikil áhrif á fylgi frambjóðenda, utan Andra Snæs og Davíðs. Davíð nýtur stuðnings 12 prósenta Reykvíkinga en 22 prósent landsbyggðarinnar hyggjast kjósa hann. Þessu er öfugt farið hjá Andra. 21 prósenta fylgi í Reykjavík en 10 prósenta fylgi á landsbyggðinni.

Þessa sömu andstæðu á milli Andra Snæs og Davíðs má líka sjá sé litið til menntunar kjósenda. Davíð hefur stuðning 9 prósent háskólafólks meðan 21 prósent þeirra sem hafa einungis grunnskólapróf ætla að kjósa hann. Andri Snær nýtur stuðnings 22 prósent þeirra sem hafa lokið háskólaprófi meðan 10 prósent þeirra sem hafa bara grunnskólamenntun ætla að kjósa hann.

Ekki er marktækur munur á fylgi frambjóðenda eftir fjölskyldutekjum kjósenda.

Pólitískar kosningar

Séu kjósendur flokkaðir eftir því hvern þeir kusu í forsetakosningum árið 2012 kemur í ljós að fylgi Ólafs Ragnars Grímssonar, núverandi forseta, skiptist að mestu á tvo frambjóðendur, Guðna og Davíð. Af þeim sem kusu Ólaf seinast ætla 44 prósent að kjósa Guðna nú og 30 prósent Davíð. Þóra Arnórsdóttir fékk 33 prósent fylgi í kosningum þá og ætla flestir kjósendur hennar nú kjósa Guðna, eða 62 prósent. Um 22 prósent þeirra sem kusu hana ætla nú að kjósa Andra Snæ.

Talsverður munur er á fylgi frambjóðenda eftir því hvaða flokk viðkomandi ætlar að kjósa í Alþingiskosningum. Guðni hefur yfirburðarfylgi meðal allra utan sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Hann hefur þó stuðning 32 prósent framsóknarmanna og 29 prósent sjálfstæðismanna. Davíð hefur á hinn bóginn nær engan stuðning utan ríkisstjórnaflokkanna. 52 prósent sjálfstæðismanna og 48 prósent framsóknarmanna ætla að kjósa hann.

Andri Snær mælist með meira en 25 prósent fylgi meðal þeirra sem ætla að kjósa Samfylkinguna, Vinstri græna, Bjarta framtíð og Pírata. Hann hefur nánast ekkert fylgi innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Fylgi Höllu er nokkuð svipað eftir flokkum, þó minnst meðal samfylkingarmanna en mest hjá sjálfstæðismönnum.

 

Hjálmar Friðriksson
Fréttastofa RÚV