Ekki klikka á þessu um verslunarmannahelgina

Mynd með færslu
 Mynd: Sighvatur Jónsson - RÚV

Ekki klikka á þessu um verslunarmannahelgina

31.07.2019 - 11:24
Nú gengur verslunarmannahelgin senn í garð og ágætis veðri er spáð um allt land. Þá má búast við að fólk hætti sér í ferðalög eða útilegur og hvort sem þú ætlar á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, Mýrarboltann í Bolungarvík, Eina með öllu á Akureyri eða Neistaflug í Neskaupstað er ýmislegt sem þarf að hafa í huga.

1. Passaðu að tjaldið sé ekki götótt eða myglað
Að því gefnu að þú ætlir að gista í tjaldi þá er algjört lykilatriði að athuga ástandið á því áður en þú heldur af stað. Líklega ertu að draga það fram úr geymslunni og dusta af því rykið og hver veit nema mölflugur eða mýs hafi komst í það í millitíðinni. Þú gætir líka hafa pakkað því blautu saman síðast þegar þú notaðir það sem hefði orðið til þess að það myglaði. 

Eitt er víst að það er ekkert leiðinlegra en að vera mættur í Dalinn að tjalda og uppgötva risagat á tjaldinu sem mun leka ef að það rignir eða að taka það upp úr pokanum og myglulyktin gýs upp, það vill enginn sofa í myglulykt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir - RÚV

2. Búðu þig undir allt
Við búum auðvitað á Íslandi og eitt er víst, að þú getur aldrei treyst 100% á veðurspá helgarinnar. Þó svo að það líti allt út fyrir þurra og sólríka helgi þá gæti veðurguðunum snúist hugur um miðjan laugardag og ákveðið að hella úr vatnsfötum sínum yfir saklaust fólk í útilegu eða á útihátíð. Þú munt í það minnsta aldrei tapa á því að taka regnstakkinn með þér, blautur brekkusöngur er engin sérstök skemmtun. 

Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay

3. Vertu í sambandi
Ef þú ert á leið í útilegu er ekki víst að þú getir stungið símanum í samband í næsta húsi. Hleðslukubbur getur því hentað stórvel við slíkar aðstæður. Við dæmum þig reyndar ekki ef þú ákveður að taka símalausa helgi til að slaka á eins og þú getur, en hleðslukubburinn getur líka komið að góðum notum á útihátíðum. Hver kannast ekki við að hafa týnt vinahópnum og geta ekkert gert því síminn er dauður. Þá eru góð ráð dýr. 

4. Vertu með bakpoka
Hver veit nema þú skellir þér í fjallgöngu á ferðalaginu og þá er nú ekki verra að vera með bakpoka með öllum helstu nauðsynjum. Bakpokinn er líka einstaklega mikilvægur á útihátíðum eins og Þjóðhátíð þar sem getur verið gott að vera með regnkápu til taks og vatnsflösku til að svala mesta þorstanum. Við mælum hins vegar gegn því að mæta með uppáhaldsbakpokann þinn í brekkuna þar sem ekki er hægt að lofa því að hann komi heill heim. 

Mynd með færslu
 Mynd:

5. Góða skapið
Sama hvar á landinu þú verður, hvort sem það er mígandi rigning, gul viðvörun eða glampandi sól þá tapar þú aldrei á því að taka góða skapið með þér. Berðu virðingu fyrir náunganum og skemmtu þér fallega því það er einfaldlega miklu skemmtilegra!