Ekki kappsmál að allir læri á sama hraða

22.02.2020 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: Bifröst
Breytingum á háskólamenntun síðasta aldarfjórðunginn má lýsa með þeim orðum að menntun sé lífsstíll sagði Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst við útskrift nemenda í dag. Mun fleiri stunda nám en áður og hátt í helmingur landsmanna á aldrinum 25 til 64 ára hafa lokið háskólanámi. Vilhjálmur sagði ekki kappsmál að allir stunduðu nám sitt á sama hraða.

Vilhjálmur sagði að skólarnir þyrftu að koma til móts við þarfir stækkandi hóps og fjölbreytts. „Það getur heldur ekki verið kappsmál að allir fari í gegnum nám á sama hraða. Bæði hentar sami námshraði ekki öllum út frá því hvernig fólk lærir best eða nýtir best tíma sinn í skóla,“ sagði Vilhjálmur.

„Og eins er það ekkert síðra fyrir samfélagið að fólk sé í vinnu og skóla á sama tíma. Þarf fólk ekki alltaf að vera eitthvað að læra í og með vinnunni hvort eð er þótt það sé ekki í skóla? En með því að fólk sé á vinnumarkaði og að greiða skatta á sama tíma og það lærir í skóla má ætla að það sé að skila meira til samfélagsins en þeir sem ekki vinna með skóla,“ sagði Vilhjálmur í ræðu sinni.

Við útskriftina í dag voru 69 nemendur útskrifaðir úr grunn- og meistaranámi í viðskiptadeild og félagsvísinda- og lagadeild.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi