
Ekki kafað í Núpá vegna hættu á krapaflóði
Þar segir að áhersla verði lögð á að leita frá slysstað og niður að Stekkjaflötum. Leitað verði á þrettán leitarsvæðum. Þyrla Landhelgisgæslunnar og drónar frá sérsveit ríkislögreglustjóra og björgunarsveitum verða notuð við leitina.
Kafarar hafa enn ekki getað kafað í ánni en tóku þátt í sérhæfðri leit í gær. Ekki er fyrirhugað að þeir kafi í dag vegna mikillar hættu á krapaflóði.
Mikill kuldi er nú á leitarsvæðinu. Veðurspá er hagstæð fyrir daginn en leitarskilyrði eru þó afar erfið. Leitað verður fram á kvöld.
Uppfært klukkan 11:42: TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var nú á tólfta tímanum send til til leitar í Sölvadal. Fjögurra manna áhöfn er um borð sem og björgunarsveitarmaður á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Áhöfn þyrlunnar kannar sömuleiðis aðstæður á svæðinu úr lofti. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landhelgisgæslunni.