Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki inni í myndinni að gefast upp

06.06.2018 - 10:59
Mynd með færslu
Páll Sverrisson. Mynd: RÚV
Þrátt fyrir að Persónuvernd hafi úrskurðað á síðasta ári að dómstólar hafi brotið á Páli Sverrissyni með birtingu á persónuupplýsingum um hann, hafa dómar með viðkvæmum persónuupplýsingum síðan verið birtir á vefsvæðum dómstóla. Páll ætlar að halda áfram baráttu sinni fyrir réttlæti áfram, þar sem hann vill ekki að aðrir lendi í því sama og hann.

Fréttastofa hefur greint frá tveimur dómum sem nýlega voru birtir á vef Landsréttar. Í öðrum þeirra var karlmaður nafngreindur, fyrir slysni, í máli er varðaði sviptingu sjálfræðis. Nafnið var fjarlægt nokkrum klukkustundum síðar. Í öðru máli var ítarlega greint frá aðstæðum fjölskyldu í máli um sviptingu forræðis. Dómurinn var á netinu í tíu daga en var fjarlægður eftir fyrirspurn fréttastofu.

Nafngreina mann og fjalla um vitræna skerðingu

Nokkur dæmi eru um dóma á vef Hæstaréttar á síðustu árum þar sem fólk er nafngreint og birtar ítarlegar upplýsingar um heilsufar þess. Sem dæmi má nefna dóm þar sem fjallað er um vitræna skerðingu karlmanns sem lenti í slysi. Á vef Hæstaréttar má einnig finna dóma í skaðabótamálum á þessu ári þar sem fólk er nafngreint og birtar ítarlegar upplýsingar um heilsufar þess í kjölfar slysa.

Vísað til ríkislögmanns

Mál Páls Sverrissonar kannast líklega margir við. Læknir hafði notað upplýsingar úr sjúkraskrá hans í vörn fyrir siðanefnd Læknafélags Íslands. Þær voru birtar í úrskurði hennar í Læknablaðinu árið 2011. Síðan hafa Héraðsdómur Reykjaness, Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur birt nafn hans og viðkvæmar upplýsingar um hann á netinu. Persónuvernd úrskurðaði í júní í fyrra að vinnsla Héraðsdóms Reykjaness og Héraðsdóms Reykjavíkur á persónuupplýsingum um Pál hafi ekki samræmst lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Vill að dómstólar hætti að birta persónuupplýsingar

Páll leitaði nýlega til dómstólasýslunnar þar sem hann vill fá bætur frá dómstólunum. Dómstólasýslan er stjórnsýslustofnun sem hefur það hlutverk að vera í forsvari fyrir sameiginlega stjórnsýslu allra dómstólanna, héraðsdóms, Landsréttar og Hæstaréttar. Hann fékk þau svör frá dómstólasýslunni að erindi hans hafi verið sent til viðkomandi dómstóla, það er til þeirra sem brutu á honum með birtingu persónuupplýsinga. Hæstiréttur og Héraðsdómur Reykjavíkur hafa nú svarað Páli og bent honum á að leita til ríkislögmanns. Það er því ljóst að máli Páls lýkur sennilega ekki í bráð. Hann kveðst hafa þá tilfinningu að kerfið sé þannig sett upp að fólk í hans sporum eigi einfaldlega að gefast upp. „Það er ekki til í mínum orðaforða að gefast upp. Ástæðan fyrir því að ég hef haldið áfram með málið er sú að ég vil ekki neinn lendi í því sama og ég,“ segir Páll. Hann bendir á að eftir úrskurði Persónuverndar hafi dómstólar birt persónuupplýsingar á netinu.

Dæmi um að persónuupplýsingar séu lengi á netinu

Birting persónuupplýsinga í dómum á vefsíðunni domstolar.is heyrir undir valdsvið Persónuverndar. Í skriflegu svari stofnunarinnar segir að niðurstaða í máli Páls Sverrissonar hafi fordæmisgildi í sambærilegum málum. Persónuvernd hefur fylgt úrskurðum sínum í máli hans eftir með fundum með dómstjórum. Starfsdagur dómstólanna var 9. maí síðastliðinn og var dagskráin helguð umfjöllun um persónuvernd og farið yfir nýja evrópska persónuverndarlöggjöf. „Þá hefur nýstofnaður starfshópur dómstólanna óskað eftir leiðbeiningum frá Persónuvernd um hvaða reglur skuli gilda um birtingu á dómum og dagskrám dómstóla hérlendis. Auk þessa eru allar ábendingar sem Persónuvernd berast um dómsbirtingu dómstóla teknar til skoðunar og afgreiðslu,“ segir í svari Persónuverndar.

Mynd með færslu
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV

Persónuvernd hefur fengið ábendingar um að huga þurfi betur að persónuverndarreglum við dóma og úrskurði á vefsíðum dómstóla. Dæmi séu um að dómar með persónuupplýsingum hafi verið á netinu í langan tíma án þess að viðkomandi einstaklingar hafi vitað af því.

Telja að dómstólar ætli að bæta sig

Það er mat Persónuverndar að vinna nýstofnaðrar dómstólasýslu að nýjum reglum um birtingu dóma á vefsíðum bendi til þess að dómstólarnir geri sér grein fyrir því að birting hafi ekki verið í nógu góðum farvegi. Vegna frumkvæðis dómstóla að því að bæta úr, hafi Persónuvernd ekki talið tilefni til að fara í sérstaka frumkvæðisathugun hvað þetta varði. Mikilvægt sé að dómarar og aðrir sem að birtingu komi séu vel meðvitaðir um reglur persónuverndarlaga og átti sig til að mynda á því að þó að nauðsynlegt geti verið að dómurinn sjálfur innihaldi tilteknar persónuupplýsingar, sé ekki þar með sagt að heimilt sé að birta þær á netinu. „Hins vegar er jafnframt ljóst að á vefsíðum dómstólanna er nú stórt safn dóma og úrskurða sem innihalda persónuupplýsingar, og svo virðist sem birting þessara upplýsinga hafi í einhverjum tilvikum ekki samrýmst persónuverndarlögum. Við þessari stöðu þurfa dómstólar að bregðast,“ segir í svari Persónuverndar.

Telur farsælast að ábyrgð á birtingu verði á einum stað

Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrum héraðsdómari, segir að færa þurfi birtingu dóma á einn stað. Nærtækast væri að færa málið til dómstólasýslunnar. Áslaug hefur meðal annars látið sig persónuverndarmál varða og hefur verið boðuð á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, þar sem þessi mál, meðal annarra, hafa verið til umræðu. Nefndin hefur frá haustinu 2016 haft stjórnsýslu dómstólanna til skoðunar. Hún segir að með því að færa birtingu dóma til dómstólasýslunnar yrði hægt að samræma framkvæmd, rútínu og færni og ekki síst verði þá skýrt hvaða stjórnsýslueining beri ábyrgð á birtingu dóma.

Mynd með færslu
Áslaug Björgvinsdóttir, lögmaður og fyrrum héraðsdómari. Mynd: Saga Sig

Þá þurfi dómstólar líka að teygja sig til þeirra sem brotið hefur verið á, ekki bara til Páls Sverrissonar heldur allra hinna líka, að dómi Áslaugar. „Hér þarf að fara aðrar leiðir en að vísa fólki á dómstólana, gerendurna sjálfa, til að dæma um eigin brot. Hér þarf sátt eða löggjöf um bætur og lok mála. Hér þarf viðbrögð sem hafa það að leiðarljósi að vinna aftur traust þeirra og annarra borgara til dómstólanna. Borgarinn á ekki að þurfa að óttast það að fara með mál fyrir dómstóla af ótta við opinbera smánun.“ Að hennar mati er birting persónuupplýsinga á vefsvæðum dómstóla ekki einstök tilvik heldur kerfisbundin, ólögmæt framkvæmd.