„Ekki hollt fyrir auðmýktina“

Mynd:  / 

„Ekki hollt fyrir auðmýktina“

31.05.2019 - 11:42

Höfundar

„Þetta er ekki hollt fyrir auðmýktina," sagði listamaðurinn Ragnar Kjartansson um þá staðreynd að risastór mynd úr verki hans prýðir framhlið Metropolitan safnsins í New York borg. Þar er nú til sýningar myndbandsverkið hans Death is elsewhere, og verður fram til 2. september. 

Freyr Eyjólfsson talaði við Ragnar fyrir Morgunvaktina á Rás 1 í morgun. Freyr benti á að vanalega séu verk eftir látna listamenn á framhlið safnsins, á borð við Picasso og Monet, en nú sé Ragnar í forgrunni. Ragnar segir sýningu hans koma til vegna nýrra áhersla hjá safninu. Nú vilji það safna og sýna nútímamyndlist.

Aðspurður um verkið segir hann það fjalla um ástina og dauðann. „Þetta er alvarlegt og," sagði Ragnar áður en hann hugsaði aðeins betur um verkið. „Ég veit ekki alveg hvað þetta er, þetta er þarna á ljóðrænu slóðunum sko, sem mér finnst mjög gaman. Ég veit ekki alveg um hvað þetta verk er eða hvað þetta verk er. Það er eitthvað satt við það, en ég skil það ekki alveg sjálfur," sagði Ragnar.

Freyr varð að slíta viðtalinu snemma, þar sem Ragnar þurfti að sinna opnun verks síns. Fyrst þurfti hann að ræða við blaðamenn, og svo var skálað og spjallað. „Þetta er svo erfitt líf," sagði Ragnar kíminn við Frey að lokum þar sem hann þurfti að fara að skála við elítuna í New York.

Mynd: Ragnar Kjartansson / Metropolitan Museum