Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

„Ekki hennar sök hvernig fór“

31.10.2016 - 19:07
Mynd:  / 
Logi Már Einarsson, nýr formaður Samfylkingarinnar, segir að Oddný G. Harðardóttir sýni ábyrgð með því að stíga til hliðar og ef til vill setji hún með þessu fordæmi í íslensk stjórnvöld.

Logi, sem verið hefur varaformaður flokksins, tekur við sem formaður eftir afsögn Oddnýjar. Hann segist hafa vitað um áform formannsins frá því í morgun.

„Ég átti kannski ekki von á þessu. Hins vegar held ég  að hún sýni þarna mikla ábyrgð og setji kannski fordæmi í íslensk stjórnmál,“ segir Logi.

Oddný las óvænt upp yfirlýsingu þegar fréttamenn tóku á móti henni á Bessastöðum að loknum fundi hennar með forseta Íslands. Hún segir að ekki hafi tekist að snúa við erfiðri stöðu flokksins á þeim fimm mánuðum sem hún hafi gegnt embætti formanns flokksins. Mikilvægt  sé að friður skapist innan flokksins svo hægt sé að byggja hann upp að nýju. Afgerandi niðurstöður kosninganna kalli á afgerandi viðbrögð. Þess vegna hafi hún ákveðið að stíga til hliðar sem formaður Samfylkingarinnar.

Logi segir að það sé ekki hennar sök hvernig fór fyrir flokknum. Það sé allra sök.  Hann segir að flokkurinn eigi aftur eftir að rísa.  En hver er skýring hans á því að ekki er eftirspurn eftir jafnaðarmannaflokki?

„Ég held að það sé klárlega eftirspurn eftir okkar gildum. Það er auðvitað klárt að það eru fleiri flokkar sem halda þeim á lofti fyrir þessar kosningar. Það er út af fyrir sig ánægjuefni. Fyrir liggur að við þurfum að setjast niður og átta okkur á því hvernig við getum getum komið þeim málefnum skýrar á framfæri. Við munum stíga okkar næstu skref þannig að okkar rödd heyrist með skýrari hætti og að við tölum skýrar og betur beint til fólks, segir Logi Már Einarsson.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV