Ekki hægt að tengja sprengilægðina loftslagsbreytingum

19.12.2019 - 16:52
Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg / Slysavarnafélagið Landsbjörg
Fárviðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku afhjúpaði veikleika í innviðum en líka hversu berskjölduð við erum gagnvart náttúruöflunum. Fólk dustaði rykið af veðurlýsingarorðum sem eru bara notuð spari. Veðrið var kolsnælduvitlaust, bandsjóðandibrjálað, foráttuvont, bylurinn var öskuþreifandi. Síðustu daga hefur svo verið talað um fordæmalaust rafmagnsleysi, fordæmalausan hrossadauða - en var veðrið sjálft fordæmalaust og má að einhverju leyti rekja það til loftslagsbreytinga?

Versta veður í manna minnum

Veðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku einkenndist af öfgum og sumir töluðu um versta veður í manna minnum. Mikill vindstyrkur, miklum snjó kyngdi niður á stuttum tíma. Loftslagsbreytingar eru sagðar hafa í för með sér auknar öfgar í veðurfari. Sumir tala um að norðanáttin sé orðin hlýrri og það ýti undir ísingaveður. Ýttu loftslagsbreytingar undir ofsann í veðrinu? „Nei, það er ekki hægt að segja það,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Við vitum auðvitað ekki fyrr en að einhverjum árum eða áratugum liðnum hvort svona ísingaveður verði eitthvað algengari en þau hafa sýnt sig á landinu áður fyrir einhverjum áratugum þannig að það er ekki hægt að tala um það sérstaklega í þessu tilfelil. Auðvitað er auðvelt að rugla þessu saman, loftslagsbreytingum og veðrinu frá degi til dags, en eitt svona skot, þó það sé vissulega öfgafullt, það er ekki endilega hægt að tengja það og við tengjum þetta skot ekki sérstaklega við loftslagsbreytingar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur.

En tjónið sem hlaust af veðrinu, sjórinn gekk til dæmis á land á Borgarfirði eystri. 

 „Nú er ég ekki viss um hversu mikil hækkun hefur orðið á sjávarborði og það er auðvitað tengt loftslagsbreytingum. Hún er á bilinu einhverjir millimetrar til sentimetrar og mér finnst ólíklegt að sjór sem gengur yfir varnargarða sé allt í einu orðinn nógu hár til að ganga yfir. Það var auðvitað spáð tíu til ellefu metra ölduhæð þarna út af veðrinu og ég held það hafi haft miklu meira með þetta að gera en hækkun sjávarborðs.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Brim á Borgarfirði eystra. Elísabet Sveinsdóttir rekur gistiþjónustu og lenti í töluverðu tjóni.

Auka orka í lofthjúpnum vegna hlýnunar

Lærdómurinn er kannski sá að þó loftslagsbreytingar ýti undir öfgar í veðurfari þá getur veðurfar líka verið öfgafullt án þess að það hafi nokkuð með loftslagsbreytingar að gera.

„Já, það getur vel verið það. Veðurfarsbreytingar og hlýnun skilja eftir sig auka orku í lofthjúpnum sem geta orðið til þess að svona veður gerist oftar en við getum ekki staðfest með neinu móti að þetta veður hefði ekki komið til ef þessi hlýnun hefði ekki verið farin í gang. Við getum heldur ekki staðfest að veðrið hefði orðið eins, hefði ekki verið fyrir hlýnunina. Þetta er atburður sem tekur skamman tíma og á sér í raun eðlileg upptök og ekki hægt að tengja hann loftslagsbreytingum.“

TJónnæmi meira nú en manntjón meira áður

Annar af tveimur togurunum sem fórust í Halaveðrinu mikla á Halamiðum 1925.
 Mynd: Leifur heppni - Steinar J. Lúðvíksson
Í Halaveðrinu, norðvestur af Vestfjarðakjálka, fórust tveir togarar og með þeim 74 sjómenn.

Elín segir óveðrið í síðustu viku hafa verið mjög óvenjulegt en erfitt að slá því föstu að það hafi verið fordæmalaust. „Ástæðan er sú að tjónnæmið er miklu meira en það var fyrir tuttugu árum, og fjörutíu árum og öld. Við eigum meira af dóti, við erum miklu háðari rafmagni. Við höfum verið að skoða þetta og Trausti Jónsson hefur nýlega skrifað um Halaveðrið sem varð árið 1925. Þá fórust fjölmargir sjómenn og fyrir hundrað árum hefði þetta veður líklega haft svipuð áhrif, manntjón úti á sjó hefði orðið gríðarlegt en kannski ekki jafn miklar skemmdir inn til landsins hreinlega vegna þess að það var ekki allt þetta raforkukerfi og samgangnakerfi til að skemma.“

Mesta úrkoma sem sést hefur í nýjum kortum

Í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi, frá árinu 2018, kemur fram að það hafi hlýnað hér, úrkoma hafi aukist og það séu vísbendingar um að úrkomuákefð kunni að aukast og þurrkadögum að fjölga. Það var mikið fannfergi í óveðrinu, það fór allt á kaf á skömmum tíma. Er talið að loftslagsbreytingar ýti undir slíkar uppákomur? „Eins og ég skil þetta, sem spáveðurfræðingur, horfum við frekar á meiri úrkomu í sumar- og haustrigningum heldur en að það snjói meira. Það þarf kannski að skoða það betur. Það var vissulega gríðarleg úrkomuákefð í þessu veðri og spárnar gerðu ráð fyrir mikilli úrkomuákefð en það sem hefur líka gerst frá því við sáum síðasta svona veður, fyrir um það bil fjörutíu árum, þar sem fór saman svona mikill vindur og svona mikil úrkoma. Þá voru veðurspár komnar svo skammt á veg að það var engin leið til þess að sjá svona úrkomumagn í þeim. Nú segjum við að við höfum aldrei séð viðlíka tölur í veðurspám, hvað varðaði eins og úrkomuna á Tröllaskaga, en það verður að taka það með í reikninginn að það er ekki nema tæpur áratugur síðan við fórum að spá svona nákvæmt fyrir um veður.“

Hestar úti í óveðri
 Mynd: Fréttir
Fjöldia hrossa fennti í kaf í óveðrinu og talið að yfir hundrað hafi drepist.

Framtíðarveðrið: Útlandarigning í logni? 

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnhildur Thorlacius - RÚV
Hellidemba við Útvarpshúsið árið 2016.

Hefur veðrið á Íslandi breyst, ef við hugsum til dæmis tíu ár aftur í tímann? Eru loftslagsbreytingar farnar að hafa áhrif? Er til dæmis oftar steypiregn eða útlandarigning eða tekur fólk sérstaklega eftir veðurfarsbreytingum og tengir þær loftslagsvánni?  „Ég held það sé hvorutveggja. Ég held það sé örugglega hægt að sjá einhvers konar leitni upp á við í úrkomuákefð síðustu tíu til tuttugu ára. Við sjáum miklu hlýrri vetur og miklu hlýrri sumur. Þróunin hér á landi hefur verið svipuð og annars staðar. Hlýjustu ár frá upphafi mælinga eru mörg hver á síðustu áratugum. Það er það sem við horfum á, langtímameðaltöl og langtímaleitni. Við skoðum ekki eitt ár fyrir sig eða hvern landsfjórðung fyrir sig þegar við tölum um breytingar af völdum loftslagsbreytinga. 

Meiri úrkoma, meiri hiti en hvað með vinda? Er búist við því að loftslagsbreytingar leiði til þess að það verði vindasamari á Íslandi í framtíðinni? „ Nei, ég hef ekki séð það sérstaklega, það sem gerist þegar hlýnar er að það verður gróðursælla, það heftir vind og því ætti þetta að vera í hina áttina, minni vindur, allavega við yfirborðið.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi