Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki hægt að sækja um undanþágu frá orkupakka

30.08.2019 - 20:48
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Sérfræðingur í Evrópurétti segir útilokað að Íslendingar fengju undanþágu frá þriðja orkupakkanum yrði hann sendur aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Það myndi ekki skila neinu. Hún segir gagnrýni á þriðja orkupakkann byggða á misskilningi.

Andstæðingar þriðja orkupakkans vilja senda hann aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og reyna að fá undanþágu frá honum í heild sinni. Sameiginlega EES-nefndin er samstarfsvettvangur Evrópusambandsins og þeirra þriggja EFTA-ríkja sem standa saman að EES-samningnum.

Nefndinni er ætlað að tryggja framkvæmd hans og ræða álitamál honum tengd. Hún er skipuð fulltrúum Íslands, Noregs og Lichtenstein, og fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB. Gunnar Pálsson, sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er fulltrúi Íslands í nefndinni og fer með formennsku.

Öll ríkin þrjú þurfa að samþykkja

Þriðji orkupakkinn var samþykktur í ESB árið 2009 og árin á eftir var hann í meðferð sameiginlegu EES-nefndarinnar og þingnefndum Alþingis. Árið 2017 ákvað sameiginlega EES-nefndin að taka þriðja orkupakkann inn í EES-samninginn með undanþágum er varða sérstöðu Íslands og Noregs í raforkumálum og stjórnskipulegum fyrirvara frá öllum þremur ríkjunum.

Það þýðir að ríkin þurfa öll að samþykkja orkupakkann og gera nauðsynlegar breytingar á lögum í samræmi við hann. Hafni Alþingi þriðja orkupakkanum fellur hann úr gildi í Noregi og Lichtenstein en það myndi hafa veruleg áhrif í Noregi sem á mikil raforkuviðskipti við önnur Evrópuríki.

Útilokað að fá undanþágu frá innleiðingu

Margrét Einarsdóttir dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og sérfræðingur í Evrópurétti segir útilokað að Íslendingar gætu fengið undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans. „Það er náttúrulega nú þegar búið að semja á vettvangi sameiginlegu EES nefndarinnar um upptöku löggjafarinnar í EES-samninginn og við fengum ákveðnar undanþágur,“ segir hún. Það myndi því ekki skila neinu að senda málið aftur þangað. 

Spurð hvort það muni geta sett EES-samninginn og EFTA-samstarfið í uppnám, líkt og haldið hefur verið fram, segir hún að væntanlega myndi Evrópusambandið segja upp þeim hluta viðauka EES-samningsins sem snúi að raforkumálum. „Sú löggjöf færi þá í uppnám þótt við vitum ekki hvort allri löggjöfinni yrði sagt upp eða hluta hennar,“ segir hún.

Það geti haft efnahagsleg áhrif, til að mynda á raforkufyrirtæki hér á landi, og jafnvel önnur fyrirtæki. 

Aldrei gerst í 25 ára sögu EES

„Það hefur aldrei gert í tuttugu og fimm ár sögu EES-samningsins að EFTA-ríki hafi hafnað upptöku löggjafar í EES-samninginn og ástæðan er sú að afleiðingin er bæði lagaleg og pólitísk óvissa. Hluta af löggjöfinni á sviði raforku yrði sagt upp - og hvað svo?“ spyr hún. Nú sé þegar búið að semja um löggjöfina og við fengið ákveðnar aðlaganir að henni og því óljóst hver næstu skref ættu að vera. „Hvert ætti markmið íslenska ríkisins til dæmis að vera?“ spyr Margrét. 

Gagnrýni byggð á misskilningi

Það sé útilokað að fá undanþágur og við höfum þegar fengið aðlaganir. Gagnrýnin á þriðja orkupakkann sé því fyrst og fremst byggð á misskilningi. „Einhverjir halda því ranglega fram að ACER, orkumálastofnun Evrópusambandsins, muni fá völd gagnvart íslenskum aðilum, það er ekki. Að ESB hafi á einhvern hátt forræði yfir því hvort við leggjum sæstreng, það er ekki svo, það er algjörlega skýrt að það er á forræði okkar Íslendinga. Þannig að ég veit ekki hvað ætti að fara fram á hjá sameiginlegu EES-nefndinni,“ segir hún.