Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki hægt að nota orðið „grimmur“ um fugla

31.07.2019 - 10:15
Þessir þurfa engar áhyggjur að hafa af dönskum veiðimönnum svo lengi sem þeir halda sig við Súgandsfjörðinn, þar sem þessi mynd er tekin. - Mynd: Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó / Jóhannes Jónsson Jóhannes Jó
„Mávarnir hegða sér oft svona. Þeir fljúga yfir og gagga og steypa sér að fólki ef það kemur í varpið,“ segir Jóhann Óli Hilmarsson, fuglaáhugamaður og fyrrverandi formaður Fuglaverndar, um hestafólk sem varð fyrir árás máva á Suðurnesjum. Jóhann Óli segir að fuglarnir hafi verið verja afkvæmi sín.

Greint var frá því í fréttum í fyrradag að tvær ungar hestakonur hefðu slasast þegar mávar réðust að þeim þar sem þær voru í útreiðartúr ásamt föður sínum í Reykjanesbæ í vikunni. Hestarnir hefðu fælst og þær dottið af baki og voru þær fluttar með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Þær hafa verið útskrifaðar af sjúkrahúsi. 

Jóhann Óli sagði í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2 að hann telji að mávarnir hafi ekki fengið að njóta sannmælis í fréttaflutningi af atburðinum. Hestafólkið hafi líklega farið inn í sílamáfavarp, en stærsta varp sílamáva sé á Suðurnesjunum. „Það hafa verið ungar þarna á vappi og hestafólkið lent þarna nærri ungum. Mávarnir hafa bara verið að verja afkvæmi sín. Það er ekki hægt að nota orð eins og grimmur um fugla. Þetta er svona gildishlaðið hugtak. Maður talar um að fólk sé vont og grimmt en þetta er bara eðlisávísunin hjá fuglunum.“

Jóhann Óli segir að ef best sé fyrir fólk að sleppa því að fara nærri fuglavarpi. Krían fari stundum í kollinn á fólki og dritar á það en yfirleitt láti fuglar fólk í friði og forðist snertingu. 

Öðru máli gegni um skógarþresti sem hiki ekki við að fljúga í hnakkann á fólki til að fæla það frá hreiðrum. „Skógarþrestir eru hörðustu fuglarnir nærri hreiðrum. Þeir ráðast á fólk hiklaust, jafnvel í húsagörðum. Ég hef fengið hringingar frá fólki sem þorir ekki út í garð vegna þess hve skógarþrestir eru aggressívír. Fuglarnir eru bara að verja afkvæmi sín og hvorki grimmir né vondir.“

Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV