Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki hægt að líkja stöðunni við annað en stríðsástand

17.03.2020 - 20:44
Mynd: RÚV / RÚV
Stöðunni, sem nú er uppi um allan heim vegna útbreiðslu COVID-19 af völdum kórónaveirunnar, er ekki hægt að líkja við neitt annað en stríðsástand, að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Hún segir brýnt að hafa í huga að þetta sé tímabundið ástand.

Reynt hefur á heilbrigðiskerfi, efnahagslíf, menntakerfi og félagsþjónustu vegna veirunnar sem breiðst hefur um heiminn síðan í desember. Rætt var við forsætisráðherra um stöðuna í Kastljósi í kvöld. Hún sagði að undirbúningur fyrir komu þessa vágests hafi byrjað með góðum fyrirvara á Íslandi þegar gerðar voru ráðstafanir á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og víðar. Hér á landi hafi verið farið aðferðafræði Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um að skima sem flesta, rekja smitin, setja fólk í sóttkví og takmarka mannamót. 

Hér er hægt að horfa á Kastljós í heild sinni

Hlutirnir hafa breyst hratt með aukinni útbreiðslu veirunnar. Ríkisstjórnin kynnti í síðustu viku viðbragðsáætlun en örstuttu seinna lagði Bandaríkjaforseti á ferðabann og þá var ljóst að grípa þurfti til enn frekari aðgerða til að bregðast við. Síðast í gær var tilkynnt um miklar ferðatakmarkanir innan Evrópusambandsins. Katrín segir að staðan nú sé í eðli sínu ólík bankahruninu árið 2008, sem sitji fast í minni margra. „Hér erum við beinlínis í ástandi sem ég get ekki líkt við neitt annað en stríðsástand þar sem við erum með þennan vágest, þennan óvin að utan og þurfum um leið að bregðast við ákvörðunum annarra ríkja, í raun og veru jafn óðum,“ sagði Katrín í Kastljósi. 

Telur ferðabönn vera pólitíska aðgerð

Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt ferðabanni bandarískra yfirvalda og segir Katrín að vísað hafi verið í tilmæli Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar um að ekki séu vísindaleg rök sem styðji að ferðatakmarkanir virki í baráttunni við útbreiðslu veirunnar. „Ég horfi á þetta sem pólitíska aðgerð. Hún kann að eiga rétt á sér sem slík og þess vegna vakti athygli mína að þau greina frá því í rökstuðningi að þetta sé ekki endilega í samræmi við leiðbeiningar WHO,“ segir forsætisráðherra um ferðabann Evrópusambandsins.