Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki hægt að biðja fólk að bíða eftir réttlæti

13.09.2017 - 20:11
Mynd: Skjáskot / RÚV
„Stjórnvöld eiga ekki að biðja fátækt fólk á Íslandi að bíða eftir réttlætinu,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra. Hún sagði núverandi ríkisstjórn gera ráð fyrir að öryrkjar og aldraðir hokruðu áfram og byggju við skammarleg kjör. Á sama tíma dygðu lægstu laun ekki til framfærslu og fólk á lægstu launum væri beðið um að vera þakklátt fyrir 20 þúsund krónur því hlutfallslega væri það ekki lítið.

Katrín vísaði í orð Martins Luthers Kings um að það að bíða með réttlæti jafngilti því að neita fólki um réttlæti. Hún sagði að stjórnmálamenn mættu aldrei vísa í ríkjandi kerfi til að rökstyðja bið eftir réttlæti, frekar ættu þeir að breyta kerfinu. Hún sagði að annars væri hætta á að traust fólks á lýðræðislegu samfélagi myndi minnka. 

Málefni barna á flótta urðu Katrínu líka umræðuefni. Hún spurði hvort hægt væri að kalla það samfélag réttlátt þar sem talsvert fleiri börnum er vísað úr landi heldur en fá dvalarleyfi. Þetta væru börn sem hefðu eflaust lítið val um örlög sín en þau væru send héðan til landa sem tölvan segði að væru örugg eða hafi meiri reynslu af því að taka á móti fólki á flótta. 

Hér þarf stjórnvöld sem treysta sér til að útrýma fátækt og bregðast við því að ríkustu tíu prósentin eigi þrjá fjórðu alls auðs í landinu, sagði Katrín. Hún sagði vaxandi misskiptingu auðsins spretta af pólitískum ákvörðunum. Hingað til hafi ekki mátt skattleggja auðinn, og ekki fjármagnseigendur eins og venjulegt launafólk. 

Katrín sagði að hérlendis þyrftu stjórnvöld sem vilja byggja upp félagslega rekið heilbrigðiskerfi þar sem Landspítalinn standi undir hlutverki sínu og heilsugæslan fái fjármagn til að vera fyrsti viðkomustaður. Hún sagði að nú þyrfti stjórnvöld sem hefðu ekki þá hugsjón í heilbrigðismálum að útvista fé til einkaaðila sem greiðsi sér síðan arðgreiðslur af almannafé. „Það er pólitískt val, pólitísk ákvörðun.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV