Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekki hægt að ana að breytingum

21.05.2017 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ríkisstjórnin mun skoða tillögur meirihluta fjármálanefndar um komugjöld og að fresta því að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna, segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála. Komugjöld og hækkun virðisaukaskatts fari þó ekki saman.

Meirihluti fjárlaganefndar Alþingis leggur til í nefndaráliti sínu um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að fyrirhugaðri hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna verði frestað. Í staðinn verði skoðaðir kostir og gallar þess að leggja á komugjöld.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, ræddi þetta í Silfrinu laust fyrir hádegi. Hún vísaði í fyrri orð sín í umræðum um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna þess efnis að í hennar huga væri þá tekið fyrir aðra gjaldtöku, svo sem komugjöld. „Ef það á að breyta útfærslunni á þessari virðisaukaskattsbreytingu og hafa komugjöldin með þá er það sem þarfnast skoðunar. Það er ekki í mínum huga hægt að ana út í slíkt,“ sagði Þórdís um tillögu meirihluta fjárlaganefndar.

Hún sagði að þó komugjöld hefðu verið rædd lengi þyrfti að skoða þau í samhengi, meðal annars við áhrif á innanlandsflug og breytingar á skattlagningu ferðaþjónustunnar. „Þetta er þá bara eitt af því sem nefndin óskaði eftir að ríkisstjórnin skoðaði nánar og við gerum það.“

Meirihluti fjárlaganefndar fann meðal annars að því að til stæði að breyta virðisaukaskattsprósentunni á ferðaþjónustuna 1. júní á næsta ári, á miðju ferðamannatímabili. Þórdís tók undir að það væri kannski ekki heppilegasta tímasetningin.