Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki endilega góð hugmynd að taka sparnaðinn út

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Það er ekki endilega góð hugmynd að taka út sérseignarsparnað, þótt það sé í boði. Þetta segir Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka. Eitt af því sem stjórnvöld ætla að gera til að bregðast við ástandinu vegna kórónuveirunnar er að heimila fólki að taka út séreignarsparnað sinn. Björn Berg segir að þótt heimildin sé veitt þýði það ekki endilega að fólk eigi að nýta sér hana, séreignarsparnaður sé hugsaður til efri áranna.

„Þetta er í annað skipti á rétt rúmum áratug sem opnað er fyrir úttekt óháð aldri, sagði Björn Berg í Morgunþætti RÚV í morgun. „Almennt er það þannig með séreignarsparnaðinn að ætlunin er að hann sé nýttur þegar við nálgumst starfslok eða erum hætt að vinna. Og þess vegna hefur þetta 60 ára aldurstakmark verið, alveg frá því að þetta kerfi var sett á laggirnar fyrir einhverjum þremur áratugum. En núna vegna þessa ástands og vegna fyrirsjáanlegra fjárhagsvandræða hjá einhverjum einstaklingum, vonandi ekki of mörgum, þá veitir ríkið tímabundna heimild til þess að hægt sé að sækja séreignarsparnaðinn óháð aldri. En þetta er séreignarsparnaðurinn okkar, þetta er ekki fé úr ríkissjóði. Þannig að við erum í rauninni með þessu að taka lán hjá okkur sjálfum þegar við verðum eldri. En það getur verið góð ástæða, ef þörfin er mjög mikil, en fyrir aðra þarf maður að velta því vandlega fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að nota séreignasparnaðinn í neyslu til dæmis, í stað þess að eiga hann sem varasjóð þegar við lækkum í tekjum eins og gerist hjá langflestum ef ekki öllum þegar þeir hætta að vinna.“

„Óskaplega verðmætur“

Björn Berg segir að þetta sé ekki auðveld ákvörðun að taka, enda muni fólk hafa minni tekjur milli handanna þegar það verður eldra, ef það tekur sparnaðinn út.

„En kannski er það bara allt í lagi. Kannski vegur það þyngra, að ég hafi aðgang að þessu. Og auðvitað er það vilji löggjafans. Ástæða þess að það er verið að opna fyrir þetta er að veita fólki sem þarf á þessu að halda aðgengi að þessu fé. Það er bara besta mál. En það sem við megum ekki láta gerast er að það að opnað sé fyrir þetta sé túlkað sem hvatning til þess að allir ættu að nýta sér þetta, og sækja þennan verðmæta sparnað, vegna þess að hann er óskaplega verðmætur,“ segir Björn Berg.