Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ekki eitthvað eitt sem kom upp“

14.11.2019 - 17:40
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
„Í grundvallaratriðum hafa aðilar ekki gengið í takt upp á síðkastið, það var ekki eitthvað eitt sem kom upp,“ segir Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð, um uppsögn Gunnlaugs Júlíussonar úr starfi sveitarstjóra Borgarbyggðar.

Tilkynning um uppsögn Gunnlaugs birtist á vef Borgarbyggðar í gær. Sveitarfélagið og Gunnlaugur hafi komist að samkomulagi um að slíta samstarfi sínu. Hann hafi unnið að mörgum mikilvægum málum og er þakkað fyrir starfið.

Gunnlaugur hefur verið sveitarstjóri í Borgarbyggð síðan 2016 og var endurráðinn eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar árið 2018. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin voru meirihluta árið 2016 þegar Gunnlaugur var ráðinn í stað Kolfinnu Jóhannesdóttur. Vinstri græn gengu svo inn í samstarfið eftir kosningarnar.

Ákvörðunin ekki tekin af léttúð

„Samstarfið varði í eitt og hálft ár en þá var ákveðið að leiðir myndu skilja. Í þessu tilfelli var það talið heillavænlegast að slíta samstarfi við sveitarstjóra,“ segir Lilja Björg í samtali við fréttastofu. „Þessi ákvörðun var ekki tekin af léttúð. Okkur ber að hafa hagsmuni íbúa Borgarbyggðar fyrir brjósti. Sú vinna sem er framundan krefst þess að við séum samstíga.“

Spurð hvort uppsögn Gunnlaugs hafi eitthvað að gera með það að hann hafi verið kærður til Vinnueftirlitsins, eins og DV segir frá á vef sínum, segir Lilja Björg að það tengist uppsögninni ekki neitt. „Ekkert erindi hefur borist Borgarbyggð varðandi kæru til Vinnueftirlitsins um einelti. Að öðru leyti tjái ég mig ekki um þetta mál frekar.“

Gunnlaugur vildi ekki tjá sig við fréttastofu þegar eftir því var leitað.

Að sögn Lilja verður ráðið í stöðu sveitarstjóra eins fljótt og auðið er. Líklegast verður staðan auglýst. Málið verði rætt á sveitarstjórnarfundi sem haldinn verður í Borgarbyggð klukkan 16 í dag.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir