Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki búið að ákveða að fjölga bankastjórum

16.02.2014 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, segir að ekki sé búið að ákveða að fjölga bankastjórum. Hann ræddi málið meðal annars í sjónvarpsþættinum Sunnudagsmorgunn hjá Gísla Marteini Baldurssyni þar sem kom til harðra orðaskipta milli forsætisráðherrans og Gísla.

Í viðtalinu ræddu þeir meðal annars fjölgun ráðherra, ræðu Sigmundar á viðskiptaþingi og frétt Eyjunnar af mögulegri fjölgun bankastjóra í Seðlabankastjóranum.

Skipunartími Más Guðmundssonar seðlabankastjóra rennur út eftir hálft ár og er frumvarp um Seðlabankann í vinnslu í fjármálaráðuneytinu. Vefmiðillinn Eyjann sagði frá því á föstudag að samkomulag hefði náðst um það á milli stjórnarflokkanna að seðlabankastjórum verði fjölgað í þrjá.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði í samtali við fréttastofu skömmu áður en Sunnudagsmorgun hófst að enn sé margt til skoðunar varðandi það frumvarp. Spurður hvort til standi að fjölga seðlabankastjórum segir Sigmundur Davíð bæði rök með því og á móti.  Með því að fjölga þeim sé minni hætta á því að ein fyrirfram mótuð skoðun verði ofan á í bankanum. 

Vísaði Sigmundur Davíð til Bandaríkjanna þar sem margir bankastjórar sætu, en einn væri formaður bankaráðs. „Það er ekki þar með sagt að þetta sé allt klappað og klárt , það er ennþá svolítið í að frumvarpið komi fram , einhverjar vikur myndi ég halda þó að þetta geti auðvitað klárast hratt,“ sagði Sigmundur við fréttastofu.

Spurður hvort til stæði að auglýsa stöðu seðlabankastjóra nú, vildi forsætisráðherra engu svara og vísaði á fjármálaráðuneytið.