Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki borða umbúðirnar og henda matnum

02.11.2015 - 21:41
Ísland er ekkert öðruvísi en Moskva, Edmonton eða Singapore. Óblítt veðurfar hefur ekkert með það að gera hvort almenningssamgöngur virki eða ekki, segir Jarrett Walker, ráðgjafi. Ekki liggi á að byggja umfangsmikið lestakerfi, heldur þurfi fyrst að fjölga ferðum á stofnleiðum og þannig farþegum.

Hlutdeild almenningssamgangna á að tvöfaldast á næstu sjö árum og þrefaldast fyrir árið 2040 samkvæmt nýsamþykktu svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið.

Töluverð umræða hefur verið um einhvers konar sporvagnakerfi eða hraðvagna sem myndu gera fleirum kleift að nýta sér almenningssamgöngur. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinna nú að því hörðum höndum að gera þetta mögulegt og hafa meðal annars sótt ráðgjöf til Walker, sem hefur sérhæft sig í almenningssamgöngukerfum, ekki síst í smærri borgum eins og Reykjavík. Hann efast ekki um að þetta sé mögulegt. 

Mikilvægt sé þó að fara ekki fram úr sér strax. Þetta snúist ekki um að búa til eitthvert stórkostlegt léttlestakerfi út um alla borg í grænum hvelli. Þróunin verði smátt og smátt og mikilvægt að gera sér grein fyrir að almenningssamgöngur verði ekki fyrir alla.

Sumir kjósa sér búsetu í einbýlishúsahverfum þar sem ekki eru forsendur fyrir tíðum strætisvagnaferðum. Þar með kjósi viðkomandi að reiða sig á bíl til að komast ferða sinna hratt og örugglega.

Að sama skapi kjósi aðrir sér búsetu þar sem byggð er þétt og almenningssamgöngur liggi vel við og geti þá sleppt því að reka bíl. Aðalatriðið sé það frelsi sem felst í aðgengi að mismunandi hverfum borgarsvæðisins með tíðum ferðum og eftir því sem farþegafjöldinn eykst verði hægt að auka þjónustuna, fjölga forgangsakreinum og jafnvel leggja teina, skapist forsendur fyrir því.

thoraa's picture
Þóra Arnórsdóttir
Fréttastofa RÚV