Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki ástæða til að takmarka aðgengi að Bláa lóninu

Mynd með færslu
 Mynd: Basalt Arkitektar
Starfsemi Bláa lónsins verður áfram með reglubundnum hætti, en almannavarnir lýstu yfir óvissustigi vegna kvikusöfnunar undir fjallinu Þorbirni, rétt sunnan við lónið, síðdegis í dag. Jarðskjálftahrina hefur verið í gangi á svæðinu að undanförnu og land risið óvenju hratt sem bendir til kvikusöfnunar.

Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir að fyrirtækið hafi úr að ráða neyðarviðbragðsáætlun vegna svipaðra aðstæðna, en hún hefur ekki verið virkjuð. Starfsfólk sé hins vegar á tánum og sé í nánu sambandi við almannavarnir og aðra viðbragðsaðila. Hann segir að mjög faglega hafi verið að öllu staðið hjá viðbragðsaðilum í dag

„Við höfum engar áhyggjur umfram það sem fram hefur komið. Þetta er eitthvað sem við búum við, verandi á virku jarðhræringasvæði. Aðalmálið er að vera viðbúinn og hafa öryggi starfsfólks og gesta í fyrirrúmi,“ segir Grímur. Ekki sé ástæða til að takmarka aðgengi að lóninu eins og staðan er.

„Það er engin ástæða til þess á þessu stigi. Eins og fram hefur komið er þetta lægsta viðbúnaðarstig almannavarna, sem er eðlilegt að sé virkjað enda óvenjuleg framvinda í gangi. Það er full ástæða til að vera á varðbergi, en vísindamenn segja okkur að í níu af hverjum tíu tilfellum gerist ekki neitt. Aðalmálið er að allir séu vakandi og reiðubúnir ef einhver atburðarás skyldi fara í gang sem yrði óheppileg.“

Mynd með færslu
Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins

Yrði ekki neyð á örfáum klukkutímum

Aðspurður um rýmingaráætlanir í lóninu segir Grímur að fólk muni aldrei þurfa að forða sér á hlaupum.

„Það sem er áhugavert er að það hafa aldrei orðið þarna öskugos, eingöngu hraungos. Þetta gos sem hugsanlega gæti verið yrði alltaf mjög lítið gos og mun minna en þau gos sem við höfum upplifað á hálendinu á undanförnum árum. Þetta er eingöngu hvað þetta er óvenjulegur staður, verandi í túnfætinum á Grindavíkurbæ og okkur hinum megin. Það er ekki eins og það þurfi að setja sig í stellingar um að þarna verði neyð á örfáum klukkutímum,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.