Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki á stefnuskrá að vera á móti stjórninni

02.09.2019 - 19:42
Mynd: Skjáskot / RÚV
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist róa í sömu átt og ríkisstjórnin í öllum málulm, nema í þriðja orkupakkanum. Hann var eini stjórnarliðinn sem greiddi atkvæði gegn samþykkt þriðja orkupakkans í dag.  

„Það er staðföst sannfæring mín að stíga ekki nokkurt það skref sem að getur hætt á það að erlendir aðilar komist inn í auðlindir þjóðarinnar og í þessu tilfelli raforkuna. Ég mun ekki taka þátt í neinum slíkum kosningum,“ sagði Ásmundur í kvöldfréttum sjónvarps. Þar ræddi hann ástæðurnar fyrir því að hann greiddi atkvæði gegn þriðja orkupakkanum.

Ásmundur var á öndverðri skoðun við félaga sína í Sjálfstæðisflokknum í þessu máli, en sammála Miðflokknum. „Það er ekki erfið staða fyrir mig að fara að minni eigin sannfæringu og því sem hjartað býður mér í hvert sinn,“ sagði Ásmundur. „Í þessu máli lágu leiðirnar með þeim. Það er ekki vaninn í þinginu. Ég er auðvitað Sjálfstæðismaður. Þar rúmast margar skoðanir á málum og er styrkleiki þess stóra flokks.“

Atkvæðagreiðslan í dag er ekki til marks um andstöðu við ríkisstjórnina, sagði Ásmundur. „Ég hef alls ekki á stefnuskrá minni að vera á móti ríkisstjórninni. Þvert á móti er ég dyggur stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar. Hún hefur gert mörg frábær verk. Framundan er góður þingvetur þar sem við ætlum að koma mörgum góðum málum í gegn. Við erum að róa í sömu átt í öllum málum nema kannski í þessu eina máli.“