Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Ekki á gráu svæði að aftengja sótagnasíur“

22.02.2019 - 19:01
Mynd: Shutterstock / Shutterstock
Kostnaðurinn við að viðhalda mengunarvarnabúnaði í dísilbílum er óheyrilega mikill, ósanngjarn og ætti að vera niðurgreiddur af ríkinu. Þetta er mat Gísla Rúnars Kristinssonar, eiganda Bílaforritunar ehf, fyrirtækis sem hefur aðstoðað fjölmarga dísilbíleigendur við að aftengja sótagnasíur og annan mengunarvarnabúnað í bifreiðum sínum. Félag íslenskra bíleigenda heldur því fram að fyrirtæki Gísla og önnur svipuð stundi ólöglega starfsemi í skjóli takmarkaðs eftirlits.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna vísa því á bug, þau aftengi bara mengunarvarnarbúnað bílanna aðrir sjái um að fjarlægja hann. 

Endurforrita bíla til að minnka eyðslu og auka afl

Síðastliðið sumar birtist grein í FÍB blaðinu með fyrirsögninni Ólöglegar vélabreytingar á kostnað umhverfisins. Þar var fjallað um tvö fyrirtæki, Bílaforritun ehf. og Kraftkort ehf. Bæði sérhæfa þau sig í því að endurforrita vélartölvur bíla í þeim tilgangi að auka afl þeirra og minnka eyðslu og bæði selja þau hugbúnað frá bresku fyrirtæki sem heitir Viezu. Á vef kraftkorta segir að með því að endurforrita vélatatölvur sé algengt að hægt sé að ná 20 til 40% auknu afli úr vélinni. Þá segir þar að allar breytingarnar séu innan öryggismarka framleiðanda og hafi ekki áhrif á endingu vélarinnar, leiði ekki til aukinnar hitamyndunar eða sótmengunar. 

Færri síur, meira sót

Í umfjölluninni segir að fyrirtækin bjóði meðal annars upp á að taka mengunarvarnarbúnað úr sambandi, svo sem EGR-ventla, AD-blue hreinsibúnað og sótagnasíur. Þetta leiði til þess að meira magn heilsuspillandi sóts og mengandi efna berist út í andrúmsloftið. 

Á vef Kraftkorta, segir að það bjóði upp á forritun bíla með sótagnasíu þannig að fjarlægja megi síuna án þess að setja vélatölvuna í uppnám. Ýmis vandræði séu stundum fylgifiskar sótagnasíunnar. Kraftkort geti forritað tölvuna þannig að sótagnasían verði óvirk og einnig megi fjarlægja hana alveg og losna þar með við öll óþægindi af hennar völdum samhliða því að auka áreiðanleika bílsins og afkastagetu vélarinnar. 

Segir síurnar ekki þarna að ástæðulausu

Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja segir meðal annars að óheimilt sé að fjarlægja búnað sem er til að draga úr útblástursmengun. Skemmist slíkur búnaður eða dragi verulega úr virkni hans skuli þegar endurnýja hann. „Það er okkar mat að þetta sé ólöglegt, þetta er hluti af útbúnaði bifreiðarinnar og fellur undir gerð og búnað bifreiða, þarna er inngrip inn í virkni ökutækisins,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, „það er ekki að ástæðulausu sem það var sett í regluverk og gert að skyldu að hafa svokallaðar sótagnasíur í dísilökutækjum, það er til að taka þessar litlu sótagnir sem eru taldar okkur sem um göturnar göngum hættulegastar.“ 

Mynd með færslu
 Mynd:
Runólfur Ólafsson

Eigi ekki að komast í gegnum skoðun

Runólfur telur að bílar sem átt hefur verið við mengunarvarnabúnað í ættu ekki að komast í gegnum skoðun. Þeir uppfylli í einhverjum tilvikum ekki gerðarviðurkenningu framleiðenda sem séu forsenda skráningar hér. Þá geti aukning á útblæstri orðið til þess að bíllinn sé rangt skráður og lögð á hann röng bifreiðagjöld. 

Aldrei fjarlægt mengunarvarnabúnað

Gísli Rúnar Kristinsson, eigandi Bílaforritunar, er ekki á því að starfsemin sé ólögleg. Fyrirtækið hafi aldrei komið að því að fjarlægja mengunarvarnabúnað úr bílum. „Eins og ég túlka reglurnar, sem ég las nú ekki til hlítar, þá er ólöglegt að fjarlægja mengunarbúnað úr bíl, það er alveg klárt. Við bjóðum upp á hugbúnaðarbreytinguna, að breyta villukóðum og þess háttar en við fjarlægjum engan mengunarbúnað, tökum ekki síurnar úr eða neitt þess háttar. Bíleigandinn er oftast búinn að því sjálfur áður en hann kemur.“

Er þá frekar einfalt að fjarlægja þessar síur, síurnar sjálfar?

„Nei, það er mismunandi, getur verið frá klukkutíma vinnu upp í tíu tíma vinnu. Þú þyrftir alltaf að fara á eitthvert verkstæði eða vera sæmilegur járnsmiður með suðu og þess háttar.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Gísli Rúnar Kristinsson.

 

Það séu því verkstæði út í bæ að gera eitthvað vafasamt. 

Þrátt fyrir að fjarlægja ekki búnaðinn er fyrirtæki Gísla að auðvelda fólki, sem hefur gert þessar breytingar á bíl sínum, lífið. Er það ekki á gráu svæði? „Ég vil ekki meina það, ég er búinn að tala við mína menn, lögfræðinga meðal annars.“ 

Þagga niður villukóðann með einfaldri uppfærslu

En hvað felur það að aftengja mengunarvarnarbúnað í sér? Gísli segir að það sé tiltölulega einföld og fljótleg aðgerð. Hann uppfærir vélartölvu bílsins með hugbúnaði frá bresku fyrirtæki. Við það hættir bíllinn að senda villuboð um að mengunarvarnabúnaður sé í ólagi. Það slokknar á viðvörunarljósinu í mælaborðinu. „ Það er ákveðið fyrirtæki úti, þau hlaupa á þúsundum sem gera þetta, þau opna hugbúnaðinn í bílnum og fjarlægja ákveðna villukóða sem geta komið upp vegna þess að bíllinn veit af því að sían er ekki í pústinu, það er í raun bara þaggaður niður villukóðinn þannig að bíllinn veit ekki af þessu.“

Á vef Bílaforritunar segir að fyrirtækið hafi forritað 1005 fólksbíla, 51 trukk og sjö rútur. Ekki liggur fyrir hvort átt hafi verið við mengunarbúnað margra þeirra eða einungis gerðar breytingar í þeim tilgangi að auka afl eða minnka eldsneytisnotkun. Markmiðið með því að forrita bílinn er yfirleitt að auka afl og minnka eyðslu. 

Ekki alltaf þörf á að aftengja búnaðinn

Gísli segir vel hægt að ná því markmiði án þess að aftengja mengunarvarnabúnað enda sé það alls ekki alltaf gert. Hann ráði fólki frá því þegar búnaðurinn virkar. Hann segir að fyrirtækið sem hann kaupir uppfærslurnar af sé með umhverfisvottun og hafa unnið til verðlauna fyrir að gera hlutina betur en framleiðandinn. Í Bretlandi fái bíleigendur sem skipta við fyrirtækið afslátt á bifreiðagjöldum og tryggingum því bíllinn eyði minna og mengi minna. 

Sótagnasíubilun of mikill skellur fyrir venjulegt fólk

Sótagnasíurnar geta þó, að sögn Gísla verið erfiðar viðfangs, þær eigi það til að bila eða stíflast. Þær virki ekki vel við íslenskar aðstæður. „Sérstaklega stuttar vegalengdir, þá eru menn að lenda í veseni. Ég vil meina að kostnaðurinn á bak við þennan mengunarbúnað sé óheyrilegur og eiginlega ósanngjarn, verðlagningin, álagning, tollar og allt þetta. Auðvitað ætti FÍB frekar að beita sér fyrir því að ríkið niðurgreiði mengunarbúnað þannig að það sé raunhæft fyrir venjulegt fólk að standa straum af kostnaði við þetta. Auðvitað vilja allir vera grænir og halda sínu við en flestar íslenskar fjölskyldur geta ekki tekið á sig 600 eða 700 þúsund króna skell þegar það er ekkert að bílnum í rauninni. Í ákveðnum bílum kostar viðgerð þetta og algengt verð á svona síu er 250 þúsund sem mér finnst frekar mikið. Sían er dýr í framleiðslu, það eru notaðir í hana hágæðamálmar og það verða í henni efnahvörf sem brjóta niður sótið og binda það. Svo er sótið í raun brennt út en allur þessi mengunarbúnaður þarf orku til að vinna og hún er tekin úr eldsneytinu, bílarnir eyða miklu meiru og þess vegna hríðfellur eyðslan oft þegar fólk losar sig við mengunarbúnað úr svona bílum. Auðvitað ætti ríkið að koma að þessu, það er mitt persónulega álit,“ segir Gísli.  
 

Það hefði ekki átt að selja bílana til innanbæjaraksturs

Runólfur segir að það geti vel verið að hægt sé að spara eldsneyti eða auka kraft ökutækja með því að fjarlægja mengunarvarnabúnað. Þessi búnaður geti verið ákveðin fyrirstaða og aukið álag á vélina. Þá geti þessi búnaður bilað eins og annar og viðgerðir geti verið dýrar. „Sem dæmi, þessar sótagnasíur og sérstaklega fyrstu kynslóðirnar voru þess eðlis að í raun hefði aldrei átt að vera að selja fólki sem eingöngu var að aka um í þéttbýli dísilbíla með svona sótagnasíum því að hluti af virkninni felst í því að þegar þú ferð í langakstur úti á þjóðvegi fer í gang ákveðið ferli, þar sem sótagnirnar sem hafa safnast upp í síunni brenna við háan hita. Ef þú keyrir bara á lágum snúningi og litlum hraða í þéttbýli getur þetta safnast fyrir og þá þarf jafnvel að fara í bílaumboðið og láta brenna þessu út úr vélinni þar.“ 
 

Á móti komi að með því að eiga við búnaðinn sé verið að losa út í andrúmsloftið mun hærra hlutfall af köfnunarefnisoxíðum og aukið magn sótagna. Þetta snúist um siðferði og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland geti ekki hunsað. En finnst Runólfi ekki skiljanlegt að fókl grípi til þessa þegar það liggur kannski fyrir 500 þúsund króna viðgerð og bíleigandinn fær kannski ekki einu sinni það mikið fyrir bílinn, ákveði hann að selja? Runólfi finnst það ekki. „Ég verð að segja eins og er að ég tel það ekki eðlilega ráðstöfun, hitt er að það freistast örugglega einhverjir til þess. Fólk þarf þá bara að vera meðvitað um að það getur átt það á hættu að ökutækið fái á sig akstursbann.“ Slíkt bann sé ekki bíleigendum í hag.

Segir óvissu um ábyrgð framleiðenda eftir breytingar

Runólfur bendir einnig á að þessi inngrip geti haft áhrif á ábyrgð framleiðanda enda óvissa um hvaða áhrif þetta hafi á virkni ökutækja til lengri tíma. Á vef bílaforritunar segir að bílar sem hafa verið endurforritaðir detti ekki sjálfkrafa úr ábyrgð en umboðsaðilar geti hafnað ábyrgð geti þeir sannað að galli eða bilun tengist endurforrituninni með beinum hætti. Gísli telur að endurforritun leiði ekki til aukins slits, það sé svigrúm til að auka afl véla og minnka eyðslu án þess að það komi niður á bílunum. Þetta sé vegna þess að framleiðendur keyri alltaf vélarafl niður, til að bílarnir þoli vanhirðu. Þá noti þeir oft af hagkvæmnisástæðum sams konar vélar í margar gerðir bíla. 

Stuðlar að aukinni mengun

Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju, segir í svari við fyrirspurn Spegilsins, að þessi inngrip séu ekki í samræmi við reglur og stuðli að aukinni mengun. Hann segir ekki hægt að fullyrða um hvort framleiðendur ábyrgist bíla sem átt hefur verið við mengunarvarnarbúnað í, slík mál yrðu sennilega skoðuð í hverju og einu tilfelli ef á reyndi. Í sumum tilvikum, til dæmis í Mercedes-Benz bílum, sjái framleiðandinn það strax í tölvukerfi ökutækis hvort átt hafi verið við það. Næst þegar sótt er um ábyrgð í ábyrgðarkerfi framleiðanda fái hann tilkynningu um að gerðar hafi verið hugbúnaðarbreytingar. Þá þurfi að skoða hvort breytingarnar hafi áhrif á þann búnað sem sótt er um ábyrgð vegna. Ef gerðar hafi verið breytingar á innri búnaði vélar geti framleiðandi neitað ábyrgð. Hann segir fyrirtæki auglýsa þessa þjónustu mikið á Facebook og að Samgöngustofa ætti að bregðast við. 

Hvers vegna fá bílarnir skoðun? 

En ef þetta er ólöglegt, hvers vegna komast bílar með óvirkum mengunarvarnabúnaði í gegnum skoðun? Runólfur segir að skoðunarstöðvar skorti búnað til að hafa eftirlit með því hvort síur hafi verið fjarlægðar eða gerðar óvirkar, búnað sem sé nauðsynlegur til að geta framfylgt tilskipun ESB um skoðun ökutækja sem hafi verið í gildi hér frá árinu 2014. „Þetta er inni í regluverkinu sem við förum eftir og miðum við. Auðvitað hefði verið eðlilegast að þessi búnaður væri til staðar. Það að menn hafi ekki verið nógu vel með á nótunum í að uppfæra skoðunarhandbækir er upp á eftirlitsstofnunina, Samgöngustofu, að klaga.“

Ekki skoðað formlega

FÍB upplýsti Samgöngustofu um starfsemi fyrirtækjanna í sumar. Stofnunin hefur ekki sent fyrirtækjunum fyrirspurnir eða brugðist formlega við með öðrum hætti. Í svari stofnunarinnar við fyrirspurn Spegilsins segir að hafi endurforritun í för með sér að mengunarvarnarbúnaður virki ekki sem skyldi sé slík breyting ekki heimil. Fram kemur að Samgöngustofa hafi ekki eftirlit með öllum einkafyrirtækjum sem veita tæknilega þjónustu við ökutæki og hafi einungis heimild til að heimsækja viðurkennd réttingaverkstæði, faggiltar skoðunarstöðvar, endurskoðunarverkstæði og ökutækjaumboð. Bíleigendur geti haft samband við umboðsaðila ökutæki síns til að fá úr því skorið hvort ákveðnar breytingar á hugbúnaði standist lög. 

Unnið að nýrri handbók - gerð verður krafa um OBD-búnað

Samgöngustofa vinnur að sögn Þórhildar Elínar Elínardóttur, samskiptastjóra stofnunarinnar, að því að uppfæra reglugerð um skoðun ökutækja þannig að hún sé í samræmi við Evróputilskipunina frá 2014. Samhliða þeirri vinnu er að hennar sögn verið að uppfæra skoðunarhandbók skoðunarstöðva.Tilskipunin gerir ráð fyrir því að stöðvarnar noti svokallaðan OBD-búnað, On board diagnostics, en með honum er hægt að nálgast stafrænar upplýsingar úr tölvu bílsins, svo sem um hversu mikið hann mengar, hversu mikið hann er keyrður og hugsanlega hvort átt hafi verið við búnað hans. Unnið sé að nánari útfærslu á því hvernig slíkur skoðunarbúnaður verði notaður. Stefnt er að því að þessari vinnu ljúki innan nokkurra mánaða, að því loknu segir Þórhildur að skoðunarstöðvar fái eðlilegan aðlögunartíma til að koma sér upp þessum  búnaði. 

Svipað og að breyta kílómetrastöðu

Runólfur segir fyrirtækin aðstoða bíleigendur við að gera eitthvað sem sé á skjön við regluverkið og reiða sig á gloppur í eftirliti, þau geti ekki firrt sig ábyrgð. „Þetta er svipað og ef menn telja að það sé ekki ólöglegt að breyta kílómetrastöðu af því það sé ekki verið að taka neitt út úr bílnum.“

Forsendubrestur í framtíð? 

Í framtíðinni, þegar öflugri búnaður verði kominn í gagnið, segir Runólfur að eigendur bíla,sem hafa verið endurforritaðir í þeim tilgangi að aftengja mengunarvarnir, standi kannski frammi fyrir því að fá akstursbann á bílinn þegar þeir fara með hann í skoðun. Kannski hafi þeir keypt bílinn notaðan án þess að hafa hugmynd um að átt hafi verið við búnað í honum. Hefur Gísli Rúnar hjá Bílaforritun velt því fyrir sér hvort þetta geti orðið áhyggjuefni fyrir skjólstæðinga hans?  „Ég hef bara ekki kynnt mér þetta en jú, klárlega. Þetta er bara eitt símtal til okkar ef við höfum aftengt mengunarbúnað á einhverjum bíl, það er alltaf hægt að fara til baka, það er bara sama aðgerðin.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV