Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekkert verið rætt um fasta viðveru hersins

10.02.2016 - 08:09
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. - Mynd: RÚV / RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að stöðugt sé rætt við bandarísk stjórnvöld um varnir Íslands og samstarf. Ekkert hafi verið til umræðu að bandaríski herinn hafi hér fasta viðveru á ný.

Vefrit bandaríska hersins, Stars and Stripes, greindi frá því í gærkvöld að Bandaríkjaher hygðist snúa aftur og koma sér upp aðstöðu á Íslandi fyrir kafbátaleitarvélar. Til að byrja með yrði herinn aðeins með tímabundna aðstöðu hér, en gæti seinna meir farið fram á aðstöðu til langframa. 

Tíu ár eru liðin frá því bandaríski herinn hvarf af landi brott. Herflugvélar hafa síðan þá haft fasta viðkomu hér á landi í samræmi við varnarsamning milli þjóðanna. Gunnar Bragi sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að ekkert hafi verið rætt um að bandaríski herinn verði hér aftur til lengri tíma.  „Það er eitthvað sem hefur aldrei verið rætt við okkur í rauninni, hvernig gæti verið útfært, engar viðræður átt sér stað.  Við vitum ekki hvað gerist í framtíðinni, það er breytt öryggisumhverfi í Evrópu. Við verðum bara að sjá hvað setur. En ef það á að fara í útvíkkun á þessari starfsemi sem þarna er þá þarf að ræða það við okkur.“ 

Undanfarin tvö til þrjú ár hafi verið aukin umferð slíkra véla um Keflavíkurflugvöll. Það sé Íslandi í hag að bandamenn í NATO séu hér oftar. Íslensk stjórnvöld hafi lagt áherslu á að meiri vöktun sé við Ísland. Í loftrýmisgæslu við Ísland séu nú þrjár vaktir. „Við gerum ráð fyrir og höfum óskað eftir að þær verði fjórar árið 2017. Við fögnum því líka að það verði aukin umsvif. Það styrkir okkar varnir og okkar öryggi. “

 

Hvergi sé verið að ræða fasta viðveru eins og var hér á landi fyrir tíu árum. „Það er ekkert í myndinni að hér verði tvö til þrjú þúsund manns með fasta viðveru og fullt af vélum.  [...] Það er mjög auðvelt að misskilja þessa hluti. Þarna er einfaldlega verið að tala um að gera nauðsynlegar breytingar á flugskýlum svo að nýrri vélar geti komið og fengið viðhald og slíkt.“