Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ekkert sérstakt að Kanye West sé hrifinn“

Mynd: Myndband / Myndband

„Ekkert sérstakt að Kanye West sé hrifinn“

05.11.2019 - 15:54

Höfundar

Listamannanafnið Velvet Negroni varð til á dýrum kokteilabar í Texas. Maðurinn á bak við nafnið, Jeremy Nutzman, kemur fram á Iceland Airwaves í ár en margir af stærstu listamönnum í bransanum hafa ausið lofi yfir hann í gegnum tíðina. Poppland heldur áfram daglegri umfjöllun sinni um listamenn á Airwaves hátíðinni sem hefst á morgun.

Jeremy Nutzman, sem kýs að kalla sig Velvet Negroni, ólst upp í Minneapolis við strangt tónlistarlegt uppeldi en frá fimm ára aldri æfði hann klassískan píanóleik í klukkutíma á dag. „Krakkar komu og spurðu eftir mér, en ég var alltaf í fjandans tárum yfir tónlistarkennslunni,“ rifjar hann upp í viðtali við The Fader. „Mamma mín sat við hliðina á mér allan tímann sem ég æfði. Það mátti engu sleppa.“ 

Klassískri tónlist snúið á hvolf

Ég hringdi í Jeremy seinni part föstudags að íslenskum tíma og hann svaraði mér að morgni heima hjá sér í Los Angeles, slappur en til í spjall. Ég óskaði honum til lukku með plötuna og spurði hann svo að uppruna nafnsins, Velvet Negroni, hvort þetta væri kokteill sem ég hef ekki prófað eða hver sagan væri á bak við það. „Það er nákvæmlega það sem það er, þetta kom til á dýrum kokteilbar í Austin, Texas” svaraði hann flissandi. „Ég man ekki hvort ég hafi verið að drekka negroni en hvernig sem það gerðist, þegar ég heyrði það, þetta orð Velvet Negroni, þá vissi ég ósjálfrátt að þetta yrði nafnið á næsta verkefninu mínu.” 

Ég spurði hann því næst að því hvort hann teldi þetta stranga, klassíska tónlistarlega uppeldi hafa haft áhrif á tónlistina sem hann er að gefa út í dag og hann sagði, þegar hann liti yfir afurð sína, myndi hann neita því. Það væri að minnsta kosti ekki meðvitað hjá honum en hlyti þó að hafa einhver áhrif. En hann uppgötvaði svo seinna þennan stóra heim utan klassískrar tónlistar og þegar hann gerði það loksins „var það spennandi, vægt til orða tekið. Raunveruleikinn fór að skolast til, tónlistinni sem ég þekkti var snúið á hvolf.”

Sambland af eitruðum samböndum

Tónlist Velvet Negroni mætti lýsa sem einhvers konar samsuðu af fönki, poppi og R&B en hann gaf út sína fyrstu breiðskífu, T.C.O.D. árið 2017 og var að gefa út aðra plötu NEON BROWN núna í lok ágúst. Ég var að velta fyrir mér hvort platan fjallaði um eitthvert sérstakt efni og Jeremy sagði plötuna, í hnotskurn, snúast bara um mannleg vandræði (e. human quandaries). „Í hnotskurn snýst þetta um ákveðna klemmu sem felst í því að reyna sínkt og heilagt að átta mig á hversu langt ég get náð og hvaða leiðir ég get farið til að komast þangað, stöðug sjálfskoðun. Um er að ræða samblöndu af eitruðum samböndum sem ég hata að elska og elska að hata.”

Ekkert sérstakt að Kanye West hafi áhuga á tónlistinni

Velvet Negroni hitaði upp fyrir Tame Impala fyrr á árinu og rapparinn og athafnamaðurinn Kanye West hefur einnig gefið Velvet Negroni gaum, eins og heyra má í lagi hans og Kid Cudi, Feel The Love, en húkkurinn í því lagi er innblásinn af lagi frá Velvet Negroni. Þar að auki má heyra í honum á nýjustu plötu indírokkarans Bon Iver. Ég spurði hann hvaða þýðingu það hefði fyrir hann, hvort það væri mikilvægt fyrir hann að vera viðurkenndur af öðrum listamönnum. „Ég hef verið sáttur. Fram að þessu hef ég verið fullkomlega ánægður með að vita að tónlistin mín hafi veitt innblástur, hennar verið notið og hún virt af alls konar ólíkum listamönnum og af vinum. Það er ekkert sérstakt fyrir mig að þú veist, „ó, Kevin Parker hefur gaman af dótinu mínu! Justin Vernon hefur gaman af lögunum mínum! Kanye West, o.s.frv.“ Ætli það þýði ekki meira fyrir mig að aðrir geti flett upp nafninu Velvet Negroni á vefnum og séð að þessi stóru nöfn séu að fikta með það, það þýðir miklu meira fyrir mig en manneskjan sjálf.“

Tímabært að gera hlutina sjálfur

En Velvet Negroni hefur í gegnum tíðina unnið með mörgum öðrum tónlistarmönnum og sveitum, og undir öðrum nöfnum en ákvað svo að fara í þetta sólóverkefni og ég spurði hann hvað það var sem hvatti hann til þess og hann sagði það hafa verið nauðsynlegt. 

„Það var eiginlega bara nauðsynlegt. Fram að því hafði ég alltaf unnið með að minnsta kosti einum vitorðsmanni, skilurðu? En þetta varð til vegna þess að sama hver sá hópur sem ég hafði verið í eða hvernig tónlist við vorum að skapa, þegar ég leit yfir farinn veg var það alltaf eitthvað aðeins eitrað. Það var eitthvað mjög óheilbrigt, jafnvel í tónlistarsköpuninni sjálfri þó það væri gagnkvæm virðing. Þegar ég áttaði mig á að það væri tímabært að taka eigin ákvarðanir út frá eigin forsendum, vá.”

Sat nýverið með Mac DeMarco á bar

Velvet Negroni er að koma til Íslands í fyrsta skipti, en hann ætlaði sér að koma hingað fyrir nokkrum árum á Secret Solstice hátíðina en átti ekki nægan pening. Aðspurður segist hann ekki viss hvort hann ætli að fara á einhverja tónleika sjálfur. Ég sagði honum frá þeim stærstu sem voru að spila og hann hló þegar ég minntist á Mac DeMarco en hann hafði nýverið með honum á bar í Minneapolis. Hann sagðist vildi óska að hann spáði meira í smáatriðum, „þá hefði samtalið á milli okkar getað endað. Jæja, sjáumst á Íslandi!”

Velvet Negroni spilar í fyrsta skipti á Iceland Airwaves á fimmtudaginn kl. 20.20 á Kex Hostel. Brot úr viðtalinu við Velvet Negroni má hlýða á í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Airwaves

Framtíðin er kvenkyns

Airwaves

Hirðingjalíferni kvíðins pönkara

Airwaves

„Það snerist allt um það að við værum svartir"