Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert sem bendi til misnotkunar

31.10.2019 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Ekkert í úttekt Ríkisendurskoðunar á endurgreiðslukerfi til kvikmyndaframleiðslu bendir til þess að kerfið hafi verið misnotað. Sigríður Mogensen, forstöðumaður hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, segir þó hugsanlegt að í lögum um endurgreiðslu vegna kvikmynda hafi verið of víð skilgreining á því hverjir eigi rétt á endurgreiðslu.

Fréttastofa greindi í morgun frá nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurgreiðslukerfi kvikmynda. Í fréttinni kom fram að rúmir 9 milljarðar hefðu verið greiddir úr ríkissjóði frá því að kerfið var tekið upp árið 2001 og allt til ársins 2018. Ráðist var í úttektina vegna ábendingar  um hugsanlega misnotkun á kerfinu. 

„Það kemur þarna ein ábending sem leiðir til þessarar úttektar og niðurstaðan er alveg skýr; það er engin misnotkun á kerfinu,“ segir Sigríður. 

Í skýrslunni kemur aftur á móti fram að á undanförnum árum hafi vægi sjónvarpsefnis aukist innan endurgreiðslukerfisins og tilvikum fjölgað þar sem álitamál er hvort efnið falli að markmiðum laga og reglugerðar um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmynda. Þar séu til að mynda matreiðsluþættir, ýmsir skemmtiþættir og efni sem ætla megi að sé einungis ætlað til sýningar í eigin dreifikerfi sjónvarpsstöðvanna. Sigríður segir að skilgreining á því hvaða verkefni falli undir lögin og reglugerðina hafi hugsanlega verið of víð og nú sé unnið að nýrri skilgreiningu í iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu.

„En það breytir ekki þeirri staðreynd að gagnvart kvikmyndaiðnaðinum sjálfum þá hefur ekki átt sér stað nein misnotkun á kerfinu,“ segir Sigríður. 
Sigríður segir að þeir níu milljarðar sem hafi farið í endurgreiðslukerfið frá árinu 2001 hafi skilað sér margfalt til baka. „Fjölmargar skýrslur og úttektir allt frá árinu 2006 hafa staðfest efnahags- og starfshvata þessa kerfis þannig að það má segja að það leiði af sér mikla verðmætasköpun sem er mun meiri en endurgreiðslurnar nema,“ segir Sigríður.