Ekkert leikskólastarf í Borgarnesi vegna smita

25.03.2020 - 16:47
Loftmynd tekin með dróna af Borgarnesi
Borgarnes. Mynd úr safni. Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Tvö kórónuveirusmit hafa greinst í leikskólanum Klettaborg í Borgarnesi, allt starfsfólk og börn eru nú í sóttkví. Nú er enginn leikskóli í bænum starfrækur vegna smita.

Ekki liggur fyrir hvort smitin hafi greinst í starfsfólki eða börnum á leikskólanum. Steinunn Baldursdóttir, leikskólastjóri, segir að skólanum hafi verið lokað í dag. Í heild séu það um 75 börn og starfsfólk sem fer nú í sóttkví til 8. apríl. 

„Við höfum bara farið eftir leiðbeiningum og verið í góðu samstarfi við yfirvöld um þetta,“ segir Steinunn.

Ekkert leikskólastarf í Borgarnesi

Leikskólanum Uglukletti í Borgarnesi hafði þegar verið lokað þar sem einn starfsmaður var smitaður. Þar er verið að vinna í rakningu smita, en þar sem starfsmaðurinn var ekki í beinum samskiptum við börnin þurftu hvorki þau né fjölskyldur þeirra að fara í sóttkví.

Kristín Gísladóttir, leikskólastjóri, segir að einungis hluti starfsfólks sé í sóttkví. Hins vegar sé ekki hægt að hefja starfsemi að nýju fyrr en skólinn hefur verið sótthreinsaður og smitrakningu lokið. 

Fylgja leiðbeiningum

"Ég er að vinna í þessum máli í samráði við yfirvöld. Það eru svo sannarlega ekki allir starfsmenn í sóttkví en við gerum þetta bara eftir leiðbeiningum. Sem betur fer var þessi starfsmaður aldrei nálægt börnunum," segir hún. 

Hún segir að allt það starfsfólk sem er í sóttkví sé þó hresst og enginn finni fyrir einkennum enn sem komið er.

Við þetta er enginn leikskóli starfrækur í Borgarnesi.

Sjö smit á Vesturlandi

Samkvæmt færslu Lögreglunnar á Vesturlandi á Facebook eru nú fjögur smit í Borgarnesi og sjö í heildina á Vesturlandi öllu. Hin þrjú eru í Stykkishólmi. 

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi