Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekkert flogið vestur þar sem vélin var komin í annað

03.03.2020 - 18:06
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Flug til Ísafjarðar hefur legið niðri frá því á laugardag vegna veðurs. Um hádegi í dag rofaði til fyrir vestan og skilyrði urðu nægilega góð til að fljúga þangað. Þá var hins vegar búið að ráðstafa flugvél Air Iceland Connect í önnur verkefni og því varð ekkert úr flugi vestur í dag.

Samkvæmt flugáætlun Isavia var gert ráð fyrir flugi vestur kl 9:15 í morgun. Ekki reyndist unnt að fljúga þá vegna veðurs á Ísafirði. Um miðjan dag rofaði svo til en þá var búið að færa flugvélina í önnur verkefni. 

Ekki er hægt að fljúga til Ísafjarðar með Bombardier Q400 vélum flugfélagsins vegna aðflugs á Ísafirði. Tvær slíkar flugvélar eru í flota Air Iceland Connect. Q200 vélar félagsins geta flogið vestur, en ekki er hægt að fljúga þangað nema í sjónflugi. Þrjár slíkar eru í flotanum.

Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect segir í samtali við fréttastofu að þetta hafi verið bagaleg staða, en þegar fluginu var frestað í morgun hafi Q200 vélunum verið ráðstafað í flug til Grænlands og í annað innanlandsflug. Ísafjörður sé veðurfarslega krefjandi áfangastaður en það sé vont að hafa ekki getað komist þegar veðurskilyrði buðu upp á það.

Hann segir að stefnt sé að því að fljúga vestur á morgun ef veður leyfi og þá verður bætt við ferð til að bregðast við ástandinu. Hann segir að veturinn hafi verið einkar óhagstæður. Tíð óveður og rysjótt tíð hefur sett strik í reikninginn og fjöldi flugferða hefur verið aflýst.