Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekkert fjarskiptamastur virðist hafa skemmst í veðrinu

Mynd með færslu
 Mynd: Míla
Ekkert þeirra þúsund fjarskiptamannvirkja á landinu virðist hafa skemmst í óveðrinu. Fjarskipti duttu út á hluta Vestfjarða, Norðurlandi og hluta Austurlands, vegna langvarandi rafmagsleysis á stöðunum. Enn er rafmagnslaust á hluta Norðvestur- og Norðausturlands og fjarskipti stopul.

Fulltrúar Póst- og fjarskiptastofnunar, Mílu, Sýnar, Nova, RÚV og Neyðarlínunnar áttu stöðufund um afleiðingar óveðursins í morgun. Verið er að taka saman upplýsingar um það sem úrskeiðis fór þegar rafmagn og fjarskipti duttu út í lengri tíma á stórum hluta landsins. Fjarskipti duttu út á hluta Vestfjarða, öllu Norðurlandi og inn á Austurland. Enn er rafmagnslaust á svæðum á Norðvestur og Norðausturlandi.

Hátt í þúsund fjarskiptastaðir eru um allt land, ýmist í eigu Mílu, Neyðarlínunnar, RÚV og Vodafone. Þorleifur Jónasson, forstöðumaður Póst- og fjarskiptastofnunar, undirstrikar að þó fjarskipti hafi lamast hafi engin af möstrunum skemmst og kerfið hafi haldið. Allir fjarskiptastaðir eru rafknúnir og flestir með rafhlöðum til vara, sem þó duga ekki nema í nokkrar klukkustundir. Varaflstöðvar eru á lykilstöðum í kerfinu sem ganga fyrir bensíni eða dísel þegar rafmagn fer, en hönnunin gerir ekki ráð fyrir langvarandi rafmagnsleysi.

Engar frekari upplýsingar var að fá frá fyrirtækjunum í dag en til stendur að kynna samantekt á morgun. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV