Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ekkert annað en úrræðaleysi“

29.05.2019 - 19:54
Mynd: Skjáskot / RÚV
Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, gagnrýndi stöðu heilbrigðismála í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hún fann að stefnumótun stjórnvalda og sagði að víða yrði að gera betur. Hún sagði fólk væri almennt hvatt til að leita sér aðstoðar, sérstaklega þegar um geðheilbrigði sé að ræða, en að þá mæti fólki ekkert annað en úrræðaleysi.

Anna Kolbrún hóf eldhúsdagsumræðuna í kvöld og sagði sérstakt að ekki hefði verið komið til móts við sanngjarnar og eðlilegar kröfur lífeyrisþega þótt svo að flestir þingmenn væru sammála um að afnema ætti krónu á móti krónu skerðingu. „Því sætir það furðu að enn sé verið að skerða krónu á móti krónu.“ Hún vísaði einnig til þess að öryrkjar hefðu um langa hríð þurft að sætta sig við ólögmætar búsetuskerðingar. Ekki yrði þó komið til móts við það á næstu misserum þrátt fyrir augljós lögbrot.

Hún furðaði sig líka á stöðunni í heilbrigðismálum, til dæmis að ekki væri samið við sérfræðilækna sem hefðu getu og vilja til að leggja lið í heilbrigðskerfinu. Biðtími væri eftir greiningu og það væri ekki ásættanlegt. „Við segjum gjarna að fólk eigi að leita sér hjálpar. Við segjum þetta sérstaklega þegar um geðheilbrigði er að ræða. En hvað mætir svo fólki sem virkilega reynir að fá hjálp? Ekkert annað en úrræðaleysi,“ sagði Anna Kolbrún. Hún sagði að stöðugildum sálfræðinga við heilsugæsluna hefði vissulega fjölgað en það væri ekki nóg. Gera þyrfti betur.

Hún gagnrýndi líka áherslur í uppbyggingu heilbrigðisþjónustu. „Við sjáum nú þegar að ekki gengur lengur að stefna öllum sem á þjónustu þurfa að halda á einn spítala við Hringbraut,“ sagði Anna Kolbrún.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV