Ekkert ákveðið um frekari leit að Andris og Rimu

13.01.2020 - 14:07
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsendar myndir
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um áframhaldandi leit að þeim Andris Kalvan, sem hefur verið saknað á Snæfellsnesi frá því í lok desember, og Rimu Feliksasdóttur, sem hefur verið saknað á Suðurlandi frá því fyrir jól og er talin hafa fallið í sjóinn við Dyrhólaey. Engin skipulögð leit hefur verið síðustu tíu daga. 

Björgunarsveitir á Suðurlandi hafa farið í nokkrar skipulagðar ferðir að leita Rimu síðan lýst var eftir henni. Síðast var leitað frá Þjórsá að Skeiðará 3. janúar en síðan hefur engin skipulögð leit farið fram. Orri Örvarsson, formaður björgunarsveitarinnar Víkverja í Vík, segir að reglulega sé leitað í fjörunum í kring en ekkert hefur þar þó fundist. Ekki hefur viðrað til stærri leitar á svæðinu, en framhaldið verður metið í samráði við lögreglu. 

Snjóflóðahætta þar sem leitað er að Andris

Andris er talinn hafa villst í fjallgöngu á Snæfellsnesi, en aðstæður til leitar hafa verið gríðarlega erfiðar. Um 250 björgunarsveitarmenn leituðu hans mánudaginn 30. desember og 150 manns héldu áfram leit þann 3. janúar. Ægir Þór Þórsson, stjórnandi aðgerða, segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi verið tekin ákvörðun um áframhaldandi leit. 

„Aðstæður í fjöllunum hafa breyst mjög mikið undanfarið, það er kominn töluvert meiri snjór svo aðstæður eru erfiðari. Þetta eru krefjandi fjöll og krefjandi gönguleiðir og það er töluverð snjóflóðahætta,“ segir Ægir. Ekki hefur verið leitað formlega síðan 3. janúar, en þó er reynt að fylgjast með svæðinu. Mjög erfitt er að leita eins og aðstæður eru núna.

Ægir segir að ákvörðun um frekari leit verði tekin í samráði björgunarsveita og lögreglu, en engar nýjar vísbendingar hafa komið fram síðan bíll Andris fannst mannlaus við Heydalsveg í Hnappadal fyrir áramót. 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi