Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekið á mörg hundruð kríur á Snæfellsnesi

29.07.2019 - 17:42
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Ekið hefur verið á mörg hundruð kríuunga á vegarkafla milli Rifs og Hellissands á Snæfellsnesi undanfarna daga. Varp kríu og lunda hefur gengið mun betur en undanfarin ár. Aukið fæðuframboð og hagstæð veðurskilyrði liggja þar að baki.

Íbúar hafa lýst áhyggjum sínum á samfélagsmiðlum vegna aðgerðaleysis Vegagerðarinnar og bæjaryfirvalda í Snæfellsbæ. Bæjaryfirvöld hafa sett upp keilur til þess að draga úr hraða ökumanna á afleggjaranum að Rifi. Þá hefur upplýsingaskiltum um varpland fugla einnig verið komið upp. Hins vegar hefur hámarkshraðinn ekki verið lækkaður. Hann er 90 kílómetrar á klukkustund og því verða ófleygir ungar bílaumferð að bráð.

Ökumenn aki í samræmi við aðstæður

Lilja Ólafsdóttir bæjarritari í Snæfellsbæ segir að Vegagerðin beri ábyrgð á vegarkaflanum sem er um kílómetra langur. Hún telur að einfalt sé að lækka hámarkshraðann og draga þannig úr hættunni á að keyrt sé yfir kríuungana. 
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að það sé til skoðunar að setja upp leiðbeinandi hraðamerki í grennd við kríuvarpið. 

„Það ber líka að hafa í huga að lögum samkvæmt ber ökumönnum að haga akstri eftir aðstæðum. Við hljótum að leggja áherslu á að ökumenn séu vakandi fyrir umhverfi sínu, og þessu líka, jafnvel þó að það geti stundum verið erfitt að átta sig á því hvað sé að gerast þarna. En ef menn eru ekki vissir um hvað sé að gerast er alltaf vænlegast að minnka aðeins hraðann,“ segir G. Pétur.

Kría og lundi í sókn

Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrustofu Vesturlands hefur kríuvarp gengið mun betur en undanfarin ár. Aukið framboð af síli og hagstæð veðurskilyrði eru talin skýra bætta afkomu kríunnar. Hins vegar sé sorglegt að sjá þann mikla fjölda kríuunga sem hlýtur þau örlög að verða fyrir bílum.
Þá hefur lundinn verið að sækja í sig veðrið. Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrustofu Suðurlands stefnir í besta varpár lunda frá 2009.

Verið gerðar tilraunir til að fæla kríur af vegum

Árið 2016 var gerð tilraun á vegum sjávarrannsóknarseturins Varar í Ólafsvík þar sem vegarkaflar voru málaðir í ýmsum litum. Tilraunin var gerð til að kanna hvort mismunandi litir hefðu mismikinn fælingarmátt gagnvart fuglum og ungum þeirra. Niðurstöðurnar þóttu sýna að rauður litur hefði mest fælingaráhrif á kríuunga. Hins vegar var settur fyrirvari við tilraunina þar sem rannsakendur töldu að varpið hefði verið mismikið á milli litasvæðanna. Árið 2018 gerðu nemendur við Háskólasetur Vestfjarða aðra tilraun í Bolungarvík til að fæla kríuunga af vegköflum og var þá aðeins notast við rauðan lit.