Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Eitthvað smá viðbjóðslegt við Svíþjóð“

Mynd: Tsui / Wikimedia Commons

„Eitthvað smá viðbjóðslegt við Svíþjóð“

11.07.2017 - 17:25

Höfundar

Sænski stórleikarinn Michael Nyqvist lést þann 27. júní síðastliðinn, en í fyrra náði íslenski blaðamaðurinn og ljóðskáldið Ásgeir H. Ingólfsson óvæntu viðtali við hann.

Það var á kvikmyndahátíðinni Berlinale í Berlín þar sem hann hafði bókað viðtal við leikstjóra myndarinnar Hinn alvarlegi leikur, sænsku leikkonuna Pernillu August, þegar Ásgeir fékk óvænt tækifæri til að taka stjörnuna úr Karlar sem hata konur tali. Hvernig skyldi Nyqkvist hafa leiðst út í leiklist? „Ég vildi bara vera í venjulegri vinnu, vera rokkstjarna, lögfræðingur eða kennari,“ segir Nyqvist og bætir við að þáverandi kærasta hans hafi hvatt hann til að sækja um í leiklistarskóla. Það vakti svo mikla furðu hjá honum þegar hann komst inn. „Þeir hljóta að hafa verið bæði heimskir og blindir [sem hleyptu honum inn í skólann]. Ég hélt þetta væri bara einhver brandari og eftir tvær vikur var kennarinn kominn með nóg af fíflalátunum í mér.“

Hinn alvarlegi leikur er ein síðasta myndin sem Nyqvist lék í.

Að lokum settu kennararnir honum afarkosti, hann yrði að leika fimm mínútna senu úr Glæp og refsingu og vera aleinn á sviðinu. „Eftir 45 mínútur báðu þeir mig að hætta. En þetta var vendipunkturinn fyrir mig, eftir þetta var leikhús og leiklist það eina sem komst að hjá mér.“ Í myndinni Hinn alvarlegi leikur leikur Nyqvist ritstjóra. „Þegar ég var unglingur var vinur minn alltaf myndarlegri en ég og fékk allar stelpurnar. Ritstjórinn sem ég leik er svipaður karakter að því leyti.“

Nyqvist hefur afar blendnar tilfinningar til Svíþjóðar og eigin þjóðernis líka, ef því er að skipta. „Það er eitthvað skrýtið, og smá viðbjóðslegt við Svíþjóð. Þú þarft alltaf að vera pólitískt kórréttur en á sama tíma mjög víðsýnn. Það leiðir af sér lifandi satíru sem er illþýðanleg.“ Hann telur sagnahefð Svía vera á milli Þýskalands og Rússlands, þó nær Rússum. „Við höfum þennan harm og sorg.“ 

Það vita ekki margir að Nyqkvist er hálf ítalskur. „Pabbi minn er ítalskur og ég ólst upp á munaðarleysingjahæli. Mér líður eiginlega aldrei eins og ég sé heima. Í Svíþjóð líður mér eins og Ítala, í Ítalíu líður mér eins og Svía og í New York líður mér eins og Evrópubúa,“ segir hann en er þó þakklátur fyrir starf sitt og ferðalögin sem því fylgja. „Þú verður að vera auðmjúkur ef þú getur ferðast um heiminn og unnið með fólki eins og Isabelle Hubert, Jean Reno og William Hurt.“

Ásgeir H. Ingólfsson tók viðtal við Michael Nyqkvist á síðasta ári, en hlýða má á viðtalið í heild og útleggingar Ásgeirs á því í spilaranum hér að ofan.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Michael Nyqvist er látinn