Emil Rafn Stefánsson fæddist á nýársnótt og var fyrsta barn ársins. Drengurinn var engin smásmíði en við fæðingu mældist hann 59 sentímetrar að lengd og tæp 6 kíló, eða 24 merkur. Meðalþyngd íslenskra barna hefur verið í kringum 3600g, tæpar 15 merkur, og meðallengd um 50 sentímetrar.
Eitt til tvö börn á ári mælast 22 merkur við fæðingu, en sjaldgæft er að börn séu stærri en það. Samkvæmt upplýsingum frá fæðingarskráningu Landspítalans hefur eitt barn fæðst á síðustu fimm árum sem var nokkurn veginn jafn stórt og Emil, en á síðustu 30 árum hafa fæðst tvö börn sem voru örlítið stærri.
„Þetta er kraftaverkakona. Þetta ferli er alltaf kraftaverk en hún er hérna uppi, eða eins langt og maður kemst bara,“ segir Stefán Halldór Jónsson, faðir Emils.