Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eitt rauðasta vígið í Bretlandi orðið blátt

13.12.2019 - 14:26
epa06226286 Britain's opposition Labour Party MP Dennis Skinner delivers a speech at the Labour Party Conference in Brighton, Britain, 25 September 2017. Labour's annual party conference takes place in Brighton from 24 to 27 September 2017. Over 11,000 people are expected to attend.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: NEIL HALL - EPA
Eitt rauðasta vígið á breska kjördæmakortinu varð blátt í þingkosningunum í gær. Dennis Skinner, þingmaður Verkamannaflokksins í Bolsover á Bretlandi til 47 ára, var ekki endurkjörinn í bresku þingkosningunum í gær. Bolsover-kjördæmið hefur verið vígi Verkamannaflokksins síðan það var stofnað árið 1950.

Víða veltu íhaldsmenn frambjóðendum Verkamannaflokksins í rótgrónum verkamannakjördæmum. Rauði múrinn svokallaði, belti kjördæma Verkamannaflokksins um mitt Bretland, féll í kosningunum.

Þegar búið var að kynna úrslit í öllum 650 kjördæmunum nema einu hafði Íhaldsflokkurinn tryggt sér 364 þingsæti. Verkamannaflokkurinn hafði aðeins fengið 203 sæti. 326 þingsæti þurfti til þess að tryggja meirihluta í þinginu.

Óánægja með Brexit-stefnu Verkamannaflokksins er sögð hafa snúið grjóthörðum stuðningsmönnum Verkamannaflokksins. Þeir hafi kosið aðra flokka eða skilað auðu. Kosið er í einmenningskjördæmum í Bretlandi svo atkvæði til annarra flokka en þess sem fær mest falla dauð niður.

epaselect epa08067945 British Prime Minister Boris Johnson delivers a victory speech to supporters following election results in London, Britain, 13 December 2019. Britain's Conservatives won their biggest majority in general elections since the 1980s, hailing a mandate to take the UK out of the EU.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: NEIL HALL - EPA
Boris Johnson vann mikinn sigur í bresku þingkosningunum.

Skinner hefur verið þingmaður í Bolsover, fyrir miðjum rauða múrnum, á Mið-Englandi, síðan árið 1970. Hann tók við sem frambjóðandi Verkamannaflokksins af Harold Neal, sem hafði þá setið í 20 ár, eða síðan kjördæmið var stofnað. Skinner er 87 ára gamall í dag. Mark Fletcher, frambjóðandi Íhaldsflokksins, tekur við af honum í Bolsover.

Gagnrýnir konungsdæmið

En Skinner hefur látið í sér heyra. Hann hefur alla tíð gagnrýnt konungsveldið og látið skoðanir sínar í ljós við þingsetningu breska þingsins með frammíköllum á meðan formlegustu hefðum þingræðisins í Bretlandi vindur fram.

Framíköllin hafa orðið að hefð og eftirvænting og spenna ríkir um hvað Skinner kalli þegar „The Black rod“, fulltrúi konungsveldisins gengur inn í þingsalinn við þingsetningu.

Skinner er svo í nöp við konungdæmið að hann hefur fundið konungsfjölskyldunni störf, eftir að konungsveldið hefur verið lagt af: Drottningin má sjá um hrossarækt krúnunnar, enda er það hennar ástríða, og eiginmaður hennar, Filipus prins, getur opnað kebab-stað í Norður-London.

Kolanámumaður frá kolahéraði

Eftir að hafa lokið grunnskólaprófi á fjórða áratug síðustu aldar gerðist hann kolanámumaður áður en hann varð opinber fígúra og lét til sin taka á sviði stjórnmálanna. Hann hefur síðan verið kallaður The Beast of Bolsover – Dýrið frá Bolsover – í bresku pressunni.

Hér að neðan má sjá samantekt breska götublaðsins The Sun á ummælum Skinners. Þau eru mörg hver litrík.

Skinner hefur í seinni tíð öðlast nokkra frægð meðal ungra stuðningsmanna Verkamannaflokksins. Hann segist aldrei á ævinni hafa sent tölvupóst, enda vill hann að póstburðarfólk haldi vinnunni sinni. Skinner er heldur ekki með neinn Twitter-reikning, þó fjölmargir reikningar séu í hans nafni á samfélagsmiðlum.

En Skinner hefur ekki aðeins gagnrýnt konungsveldið því hann hefur aldrei vandað forkólfum Íhaldsflokksins kveðjurnar. Einna frægast er þegar honum var vísað á dyr í þingsalnum í Westminster, eftir að hafa kallað David Camercon, sem þá var forsætisráðherra Bretlands, „Dodgy Dave“.

Þó Cameron sjálfur hafi setið kíminn og fylgst með, var samflokksmönnum hans á bekkjunum fyrir aftan ekki skemmt. Þeir púuðu og óskuðu eftir því að Skinner yrði vísað úr salnum. John Bercow, forseti þingsins, gaf Skinner tækifæri á að draga orð sín til baka, en sá gamli lét ekki segjast og bætti heldur í áður en hann var bannfærður þann daginn.

Brexit setur allt í uppnám

Brexit hefur sett allt stjórnmálalíf í Bretlandi í uppnám. Hrun rauða múrsins í Bretlandi er ein birtingarmynd þess hversu mikil áhrif ákvörðun bresku þjóðarinnar að ganga úr Evrópusambandinu hefur haft.

Kjördæmi Skinners er eitt af fjölmörgum höfuðvígum Verkamannaflokksins sem nú er fallið vegna andúðar bresks almennings á stefnu stjórnmálamanna um Brexit. Verkamannaflokkurinn barðist hvorki fyrir útgöngu né áframhaldandi veru í Evrópusambandinu ef flokkurinn fengi meirihluta.

Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, lofaði því að gera nýjan samning við Evrópusambandið um útgöngu og leyfa almenningi að greiða atkvæði um hann. Íhaldsmenn lofuðu kjósendum sínum að gengið yrði úr ESB ef flokkurinn kæmist til valda.

Í strjálbýlli héruðum Bretlands er andstaðan við Evrópusambandið mun meiri en í þéttbýli. Rauða blokkin teygir sig til dæmis yfir þessi strjálbýlli svæði. Þá hefur verið bent á að breskur almenningur er orðinn hundleiður á Brexit-umræðunni og hefur þess vegna talið loforð Íhaldsins um skjótt Brexit best.

epaselect epa08064553 Britain's Prime Minster Boris Johnson leaves the polling station after casting his vote with his dog Dylan, during the general election in London, Britain, 12 December 2019. Britons go to the polls on 12 December 2019 in a general election to vote for a new parliament.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
Boris Johnson fór með hundinn sinn á kjörstað í gær.