Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eitt leiddi af öðru og þetta féll nokkuð hratt

28.03.2019 - 11:40
Mynd:  / 
Skúli Mogensen, forstjóri WOW, segir leiðinlegt og sorglegt að hafa brugðist því fólki sem hafi stutt WOW og haft trú á fyrirtækinu. Hann segir það ekki rétt að 300 milljóna króna skuld hafi verið á gjalddaga í gærkvöldi og það hafi gert útslagið fyrir fyrirtækið.

Tilkynnt var í nótt að allar velar WOW hefðu verið kyrrsettar. Á níunda tímanum í morgun var svo tilkynnt að rekstri flugfélagsins væri hætt.  

Á vef Fréttablaðsins er greint frá því að blaðið hafi heimildir fyrir því að WOW air hafi ekki getað staðið í skilum á um 300 milljóna króna greiðslu, sem átti að greiðast fyrir miðnætti, til Air Lease Corporation (ALC), stærsta leigusala flugfélagsins. Sjö vélar WOW air félagsins voru af þeim sökum kyrrsettar og í kjölfarið sendi félagið frá tilkynningu um að það hefði hætt starfsemi.

Skúli segir að rætt hafi verið við marga aðila allt fram undir morgunn. „Sem því miður heppnaðist ekki,“ segir Skúli og bætir því við að tíminn hafi einfaldlega ekki verið nægjanlega langur. Hann vill ekki tjá sig um það við hverja var verið að ræða. „Við vorum að vinna I alla nótt með fleiri en einum aðila,“ segir hann.  

Hann segir ekkert eitt hafa leitt til þess að vélarnar voru kyrrsettar í nótt. „Þetta er svolítið þannig að eitt leiðir af öðru þannig að þegar einn byrjar þá fellur þetta hratt. Það var ekkert eitt umfram annað og menn voru orðnir óþreyjufullir að sjá okkur klára fjármögnunina,“ segir Skuli.

Í fyrradag sagði Skúli við fréttastofu RÚV að hann ætlaði aldrei að gefast upp. En hvað breyttist? „Ég var nú eiginlega bara njörvaður niður í það sæti að sætta mig við staðreynd málsins. Auðvitað er þetta búið að vera mikil barátta en ég er líka óheyrilega þakklátur fyirr þann mikla stuðning og hvatningu sem ég hef fengið um það að halda áfram og gefast ekki upp,“ segir Skúli.

Skúli segir WOW ekki geta aðstoðað fólkið sem hefur keypt flugmiða hjá WOW. „Þetta er úr okkar höndum núna og mér þykir það mjög sárt því þetta fólk hefur haft trú á okkur og stutt okkur og í raun og veru hefur verið magnað hvað við höfum fengið mikinn meðbyr frá farþegum frá fyrsta degi og ég er ekki síst svekktur yfir því að geta ekki staðið við skuldbindingar okkar gagnvart þessu fólki,“segir Skúli.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir