Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Eitt af nöfnum djöfulsins og yrði nafnbera til ama“

24.01.2020 - 07:53
Mynd með færslu
 Mynd: The Satanic Temple
Mannanafnanefnd hefur hafnað því að færa eiginnafnið Lúsifer á mannanafnaskrá. Nefndin vísaði þar til þess að nafnið uppfylli ekki öll skilyrði mannanafnalaga. „Þar sem nafnið Lúsífer er eitt af nöfnum djöfulsins telur mannanafnanefnd ljóst að það geti orðið nafnbera til ama,“ segir í úrskurði nefndarinnar. Mannanafnanefnd ákvað hins vegar að leyfa konu að taka upp millinafnið Bened án þess að það yrði fært á mannanafnaskrá.

Í úrskurði mannanafnanefndar, sem er óvenju ítarlegur í tilviki nafnsins Bened, kemur fram að umsækjandinn hafi borið nafnið óopinberlega frá því að hún man eftir sér.  Nafnið væri dregið af nafni ömmu viðkomandi, Benedikta. Af þeim ástæðum taldi nefndin réttlætanlegt að konan fengi að taka upp nafnið Bened sem millinafn þótt það yrði ekki fært á mannanafnaskrá.

Þetta er síðan ekki í fyrsta skipti sem nafnið Lúsifer í einhverri mynd kemur inn á borð mannanafnanefndar. Í nóvember á síðasta ári féllst nefndin ekki á nafnið Lucifer þar sem bókstafurinn c teldist ekki til íslenska stafrófsins. Og að það væri eitt af nöfnum djöfulsins.

Nafnið River fékk grænt ljós hjá mannanafnanefnd þar sem það tekur íslenskri beygingu og sömu meðferð fengu nöfnin Ullur, Hrafnsunna og Hafalda.

Aftur á móti féllst nefndin ekki á nafnið Hannalísa. Nefndin benti á að það gæti ekki talist í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls að rita tvö sjálfstæð eiginnöfn sem eitt orð. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV