Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Eitt af hverjum hundrað börnum laust í bíl

Munið bílbeltin - skilti frá Umferðarstofu
 Mynd: JasonParls - Flickr
Eitt af hverjum hundrað börnum á leikskólaaldri, eða um eitt prósent, er laust í bílum, og því í mikilli hættu. Árið 1985 voru 80 prósent barna laus í bílum. Mikill árangur hefur náðst í að tryggja öryggi barna í bílum.

Öll börn örugg í 18 af 57 leikskólum

Þetta leiða niðurstöður könnunar sem Slysavarnafélagið Landsbjörg og Samgöngustofa gerðu fyrr á árinu um öryggi barna í bílnum. Farið var í 57 leikskóla víða um land og kannað hvernig búið var um börn í bílum þegar komið var með þau til skólans.

Gerð var athugun á 2.088 börnum og kannað hvort öryggisbúnaður væri notaður fyrir barnið eða ekki og hvernig búnaður var notaður. Á átján af þeim 57 leikskólum sem voru heimsóttir voru öll börn í réttum öryggisbúnaði. 

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að af 2.088 börnum voru 83 einvörðungu í öryggisbeltum, sem telst ekki fullnægjandi með tilliti til hæðar og þyngdar barnsins, og tuttugu voru alveg laus í bílnum, eða eitt af hverjum hundrað börnum, og því mikilli hættu. 

Tólf prósent sex ára barna eingöngu í bílbelti eða laus

Þegar litið er til aldurs má sjá að öll börn undir eins árs aldri voru í réttum öryggisbúnaði. Hið sama átti við um 95 til 99 prósent barna á aldrinum tveggja til fjögurra ára og meira en 91 prósent fjögurra til fimm ára barna.

Þá reyndust 87,9 prósent sex ára barna vera í réttum búnaði, sem þýðir að um 12 prósent sex ára barna eru eingöngu í bílbelti eða engum öryggisbúnaði. „Það er ófullnægjandi þar sem barn lægra en 135 cm á hæð skal ávallt vera í sérstökum öryggis- og verndarbúnaði sem hæfir hæð þess og þyngd. Öryggisbelti duga ekki, segir í tilkynningu á vef Samgöngustofu. 

Beltanotkun ökumanna hafi áhrif

Þá reyndust 94 prósent ökumanna nota bílbelti, en 87 prósent árið 2017. Tíu prósent beltislausra ökumanna spenntu börn sín eingöngu í bílbelti, sem er ekki réttur öryggisbúnaður fyrir börn á leikskólaaldri. Fjögur prósent þeirra voru með laus börn í bílnum. 

Af þeim ökumönnum sem sjálfir voru í belti voru fjögur prósent sem spenntu börn sín eingöngu í bílbelti og eitt prósent þeirra var með börnin laus í bílnum.

„Það er því nokkur fylgni á milli þess að ökumaður sé sjálfur í belti og að barn sé í réttum búnaði þrátt fyrir að í örfáum tilvikum hafi ökumaður verið í belti en barn ekki í réttum öryggisbúnaði. Af þessu má ætla að beltanotkun ökumanna hafi rík áhrif á það hvort börn séu í réttum búnaði,“ segir í skýrslu um könnunina. 

Ökumenn bera ábyrgð á því að réttur búnaður sé notaður

Þá er tekið fram að lögum samkvæmt beri ökumaður ábyrgð á því að barn noti viðurkenndan öryggis- og verndarbúnað. Þeir ökumenn sem ekki sinni skyldum sínum megi búast við sekt og einum refsipunkti í ökuferilskrá. 

Níu prósent þeirra sem slasast í umferðinni eru börn undir fjórtán ára aldri, segir í niðurstöðum könnunarinnar. Flest börn sem slasast eru farþegar í bílum.

  • Hér og hér má meðal annars finna nánari upplýsingar um öryggis- og verndunarbúnað og notkun hans.