Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Einstök sýn í Eyjafirði

04.03.2020 - 20:16
Mynd: Whale Watching Akureyri / Whale Watching Akureyri
Farþegar í hvalaskoðun í Eyjafirði fengu sannarlega sitthvað fyrir sinn snúð um helgina þegar þeir urðu vitni að óvenjulegri hegðun hvala við veiðar. Sjávarlíffræðingur segir ekkert þessu líkt hafa sést hér við land áður.

Hvalaskoðunarbátur Eldingar á Akureyri fór í skoðunarferð á laugardaginn. Ferðin byrjaði ósköp venjulega en rétt fyrir utan Grenivík sáu þau fyrir nokkra hnúfubaka sem höguðu sér töluvert öðruvísi við fæðuöflun en þekkist hér um slóðir og náðu því á mynd.

Mögnuð sjón

Tess Hudson sjávarlíffræðingur og fararstjóri segir hafa verið algjörlega magnað að sjá hnúfubaka veiða skipulega saman, það sé mjög sjaldgæft. Hún lýsir því þannig að einn hnúfubakur hafi farið niður og blásið mikið af loftbólum. Hinir hafi svo synt í kringum loftbólurnar og þannig fært fiskinn ofar. Þegar upp var komið hafi hvalirnir svo opnað kjaftinn og náð ætinu.

Engar upplýsingar til um veiðar sem þessar

Það þekkist erlendis að hnúfubakar vinni saman að veiðum, þá gera þeir mikið af loftbólum, eins konar loftbólunet sem fangar fiskinn. Hún segir þessa hegðun hafa verið svipaða en í þessu tilviki hafi hvalirnir opnað kjaftinn á hlið eða skáhalt. Hún segir þetta aldrei hafa sést við Ísland og það sé möguleiki á að þetta hafi aldrei sést áður því eftir rannsóknarvinnu síðustu daga hefur hún ekki fundið neinar upplýsingar um eins veiðar.

Hvalir sem hafa ekki sést hér áður

Þau horfðu á hvalina endurtaka leikinn í klukkustund og veiðarnar virtust virka vel. Hudson segir ekki gott að segja hvaðan tæknin komi. Hvalir læri hver af öðrum svo þetta sé jafnvel sambland nokkurra veiðiaðferða en aðeins um 100 hvalir í heiminum kunna að veiða með loftbólunetum. Þá gætu hvalir verið að svara minna fæðuúrvali með breyttum veiðiaðferðum. Nákvæm skrá er haldin yfir alla hvali sem hafa sést hér við land síðustu ár og Hudson segir þessa ekki hafa sést hér áður. „Og hver veit nema þeir kenni hvölunum hérna að veiða svona“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Tess Hudson, sjávarlíffræðingur