Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einstakt í frjálsíþróttasögu Íslands

Mynd: Frjálsíþróttasamband Ísland / Frjálsíþróttasamband Ísland

Einstakt í frjálsíþróttasögu Íslands

30.06.2019 - 19:25
Frjálsíþróttaþjálfarinn Þráinn Hafsteinsson segir gærdaginn einstakan í íslenskri frjálsíþróttasögu. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Tiana Ósk Whitworth slógu þá báðar Íslandsmetið í 100 metra spretthlaupi sama daginn. Þráinn segir það mjög sjaldgæft að Ísland eigi tvo jafn efnilega keppendur samtímis í sömu greininni. 

Átta Íslendingar taka þátt á Bauhaus Junioren Gala-unglingamótinu í Mannheim í Þýskalandi yfir helgina en um er að ræða eitt allra sterkasta unglingamót tímabilsins í Evrópu. Gærdagurinn hófst á því að ÍR-ingurinn Tiana Ósk Whitworth sló 15 ára Íslandsmet Sunnu Gestsdóttur frá árinu 2004 en Tiana hljóp á 11,57 sekúndum í undanrásunum. Guðbjörg Jóna hljóp reyndar líka á tíma sem var undir gamla Íslandsmetinu í undanrásunum en í úrslitahlaupinu í gær sem við sjáum hér bætti Guðbjörg um betur og sló Íslandsmetið sem Tiana hafði sett tæpum tveimur klukkustundum áður um einn hundraðshluta úr sekúndu. 

„Þarna vorum við að upplifa einstakan viðburð í frjálsíþróttasögu Íslands. Íslandsmetin hafa aldrei verið bætt tvisvar, af sitt hvorri manneskjunni á sama degi, nokkurn tímann í sögunni. Og þarna voru unglingar að verki að bæta kvennamet, sem er líka frábært. Þetta var gott met sem var búið að standa í 15 ár. Það var svosem fyrirséð að þær myndu gera atlögu að þessu í sumar, en að þær hafi svo báðar bætt metið er alveg frábært og skemmtilegt,“ sagði Þráinn Hafsteinsson um gærdaginn.

Eru í hópi efnilegustu spretthlaupara Evrópu

Guðbjörg Jóna er fædd í desember 2001 og er því 17 ára en hún varð ólympíumeistari ungmenna á síðasta ári auk þess að bæta Íslandsmet Guðrúnar Arnardóttur í 200 metra hlaupi. Tiana Ósk er fædd árið 2000 og verður 19 ára um næstu helgi. Þráinn segir Guðbjörgu og Tiönu á meðal efnilegustu spretthlaupara Evrópu í flokki 19 ára og yngri. 

„Já, þær eru  númer fjögur og fimm á Evrópulistanum í 100 m hlaupi og Guðbjörg númer fjögur í 200 m hlaupi. Tiana er þar númer ellefu. Þær eru klárlega meðal efnilegustu spretthlaupara Evrópu. Það er alveg hægt að fullyrða það. Það kemst enginn inn á þessa lista svona framarlega nema að vera í hópi þeirra allra bestu,“ sagði Þráinn.

Samkeppnin skiptir verulegu máli

Guðbjörg Jóna og Tiana Ósk eru samherjar hjá ÍR og æfingafélagar. Þráinn segir það sjaldgæft að Íslendingar eignist tvo jafn sterka keppendur í sömu grein í frjálsíþróttum og að samkeppnin sé af hinu góða. 

„Það skiptir verulegu máli að hafa samkeppnina í gangi eins og hjá þeim. Þær æfa saman upp á hvern einasta dag. Þær hafa sama þjálfarateymi og vel að öllu staðið þar hjá félaginu. Það er alveg pottþétt að það eflir þær báðar og hvetur til dáða. Svona til að rifja upp þá minnist ég þess að Þórey Edda [Elísdóttir] og Vala Flosadóttir voru samtíða í sinni grein [stangarstökki] meðal bestu í heiminum í 1-2 ár. Eins Sigurður Einarsson og Einar Vilhjálmsson í spjótkastinu. En þarna erum við að fá svona par aftur. En við erum það fámenn að til að fá fólk í heimsklassa fram á sjónarsviðið og að fá tvo á sama tíma er mjög fáheyrt. Það myndi jafnvel vera frekar sjaldséð á norðurlöndunum þar sem eru þó miklu fleiri íbúar heldur en á Íslandi,“ sagði Þráinn Hafsteinsson frjálsíþróttaþjálfari við RÚV í dag.

Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Sjáðu Íslandsmetshlaup Guðbjargar og Tiönu

Frjálsar

15 ára Íslandsmet slegið tvisvar sama daginn

Frjálsar

Tiana Ósk setti Íslandsmet í 100 metra hlaupi