Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eins og keyrt hafi verið á húsið

10.01.2020 - 15:13
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Íbúar á Selfossi, í Hveragerði, í Þorlákshöfn á Eyrarbakka og á höfuðborgarsvæðinu urðu vel varir við jarðskjálfta upp á 3,9 sem varð laust eftir klukkan eitt í dag. Þá varð fólk í Grímsnesi líka vart við hann. Nokkrir eftirskjálftar urðu á eftir. Sá stærsti var 1,8.

Álfheiður Eymarsdóttir, íbúi á Selfossi, segir höggið hafa verið mikið. „Það fyrsta sem manni datt í hug var að það hafi verið keyrt á húsð. Þetta var ansi snarpt,“ segir hún. Á eftir högginu fylgdi hristingur og þá áttaði Álfheiður sig á því að jarðskjálfti hefði riðið yfir. „Ég hljóp þá beint út í dyragætt. Ég er ennþá með leiðbeiningarnar á hreinu úr gömlu símaskránni,“ segir Álfheiður.

Álfheiður býr á jarðhæð og segist ekki hafa orðið fyrir því að hlutir hafi færst til í hilum eða brotnað. „En mér skilst á nágrönnum minum og sérstaklega þeim sem eru í fjölbýlishúsum og hinu megin við Ölfusána að hjá þeim hafi hlutir bæði dottið úr hillum og brotnað.“

Álfheiður telur að margir íbúar hafi hugsað til stóru Suðurlandsskjálftanna þegar skjálftinn í dag reið yfir. Þá hafi skjálftar byrjað með snörpu höggi og svo hafi stór skjálfti fylgt á eftir hálftíma sienna. Fólk hafi huggað sig við það hálftíma eftir skjálftann í dag að hafa ekki fundið neitt eftir það.

Fleiri íbúar á Suðurlandi og af höfuðborgarsvæðinu hafa lýst upplifun sinni af skjálftanum fyrir fréttastofu. „Svaka drunur á undan hélt að þetta væru þrumur,“ sagði einn þeirra í skilaboðum til fréttastofu. 

Gyða Björg Elíasdóttir, íbúi í Hveragerði, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að myndir hafi skekkst á veggjum hjá henni. Ekkert hafi þó skemmst enda skápar og hillur festar vel við veggina.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV