Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Eins og Aþena án Akrópólis

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Eins og Aþena án Akrópólis

13.11.2015 - 10:34

Höfundar

Það er Íslendingum til vansa að búa ekki betur að fornritum okkar og sýna þau heiminum. Guðrún Nordal, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda og forstöðumaður Stofunar Árna Magnússonar, sagði á Morgunvaktinni á Rás 1 að þetta væri eins og að heimsækja Aþenu en sjá ekki Akrópólis. Hún segir að stjórnmálamenn átti sig ekki á þeim tækifærum sem við höfum.

Mikilvægur hluti sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var endurheimt fornritanna. En hvernig hefur okkur tekist að fylgja eftir rausnarskap Dana? Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar, segir að við höfum byrjað vel, Árnagarður hafi verið reistur til að hýsa handritin, en fyrir löngu hafi allir áttað sig á því að búa þurfi miklu betur um handritin og sýna þau – eins og okkur ber að gera. Engin sýning sé nú til staðar um bókmenningu Íslendinga. „Þetta er eins og að koma til Aþenu og sjá ekki Akrópólis“, segir Guðrún Nordal, og bætir við: „Þetta er til skammar“.

Hrunið stöðvaði fyrirætlanir um umbætur og framlög til Stofnunar Árna Magnússonar hafa verið skorin niður um fjórðung. Nú blasir við á Melunum það sem gárungar kalla „hola íslenskra fræða“, þar sem er grunnur að nýju Húsi íslenskra fræða. Það hús hefur verið hannað og mikill kostnaður lagður í verkið nú þegar – en fjárveitingavaldið hefur ekki veitt fjármuni í að ljúka verkinu. „Þetta er svo spennandi verkefni, ekki verndarstarf, heldur uppbyggingarstarf. Ég hef kallað þetta hús aflstöð, virkjun menningarinnar“, segir Guðrún Nordal. Hún minnir á að væntanleg bygging eigi ekki aðeins að hýsa Árnastofnun heldur líka íslenskukennslu Háskóla Íslands, og kennslu í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Þarna verður hægt að setja handritin í öndvegi, stunda rannsóknir og taka á móti erlendum fræðimönnum, sem ekki er hægt að sinna núna.

Með stórvaxandi ferðamannastraumi hlýtur enn að færast meiri þungi í að svarað verði áhuga á menningararfi okkar. Glæsileg sýning á handritunum myndi örugglega draga að sér mikinn fjölda gesta. „Ég held að við áttum okkur bara ekki á því. Það er eins og við skiljum það ekki“, segir Guðrún Nordal. Hún bendir á mikinn áhuga um allan heim á þessum heimsarfi sem okkur er treyst fyrir. Um sé að ræða lifandi bókmenntaarf, bókmenntir sem verið er að lesa í dag. „Við þurfum að vera hugsjónafólk eins og Árni Magnússon. Ég held að fólk í stjórnmálum átti sig ekki á því hvílík tækifæri það hafi – að taka þessi skref, byggja Hús íslenskra fræða, leggja fé í máltæknina, sem er algert lykilatriði, og við munum fá allt margfalt til baka“, segir Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar – á fæðingardegi Árna, 13.nóvember. 

Tengdar fréttir

Tækni og vísindi

Heimilistækin verða að skilja íslensku

Bókmenntir

Íslenskan er hálfgert kraftaverk

Menningarefni

Krakkar hlusta öðruvísi

Íslenskt mál

Tungan er stærri en þjóðin