Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eins og að róa í kjötsúpu

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Íbúum í nágrenni Hvammstanga líkar bölvanlega við mikið mávager sem heldur til við frárennsli sláturhússins í bænum. Bændur óttast að mávarnir geti borið smit í menn og búfénað og étið unga úr æðarvarpi.

Sláturtíð er nú í sláturhúsinu á Hvammstanga og því fylgir úrgangur sem veitt er út í sjó. Hreinsibúnaður er við sláturhúsið en íbúar segja að hann skili ekki tilætluðum árangri. Mávar fljúgi um með heilu kjötbitana.

Einar Þorleifsson, náttúrufræðingur hjá Náttúrustofu Norðurlands vestra, keyrir daglega fram hjá sláturhúsinu. Hann segir að um 700-2000 mávar haldi til í fjörunni auk tuga hrafna. Ef sjórinn sé sléttur liggi fitubrák á yfirborðinu.

„ Þetta er ekki gott. Það er stórt æðarvarp þarna rétt við hliðina, svo er byggð þarna og mikið af hrossum alveg við þetta. Hrafnarnir geta til dæmis borið salmonellu í vatnsból og auðvitað fylgja þessu einhverjar bakteríur, sérstaklega ef það verða pollar í fjörunni í hlýindatíð eða í ferskvatni. Þá geta grasserað þarna bakteríur. Það þarf að ráða bót á þessu máli,“ segir Einar.

Verður ekki leyst í einni hendingu

Í samtali við fréttastofu sagði Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, að frárennsli frá sláturhúsinu hefði verið mælt. Niðurstöðurnar sýndu að hreinsibúnaður frá sláturhúsinu skilaði árangri. Hins vegar þyrfti að flytja útrás frárennslisins lengra út í sjó. Meta þurfi með hvaða hætti frárennslismál verði leyst og hvað teljist viðunandi.

Óttast að smit berist í menn og dýr

Hanný Norland, æðarbóndi og hrossaræktandi á Sæbóli, hefur ásamt fleirum ítrekað kvartað undan menguninni, bæði til Mast, sveitarstjórnar og heilbrigðiseftirlitsins. Hún segir að verið sé að ala upp máva með því að fæða þá sem haldi svo til á svæðinu. Hún segist meðal annars óttast smit sem mávarnir kunna að bera með sér.

„Maður er hræddur um öll þessi hundruð fugla sem sitja þarna saddir í fjörunni og kúka þar. Það eru kannski börn að leika þar og hundar og kettir. Fyrir utan það þá er þetta ofboðslega ljótt að sjá. Ferðaþjónustan og gestir hafa orð á því líka. Fjörðurinn bara allur litaður blóði og fitubrák út um allt. Einn maður sem er stundum að að róa út á kajak hérna sagði að þetta væri eins og að róa í kjötsúpu,“ segir Hanný.