Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eins íslenskt og indælt og það verður

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Eins íslenskt og indælt og það verður

28.06.2019 - 13:55

Höfundar

Platan Góssentíð með Góss er dásamleg plata, og eitthvað alveg íslenskt kjarnast í henni á eftirtektarverðan hátt. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Góss er skipuð þeim Guðmundi Óskari, Sigríði Thorlacius og Sigurði Guðmundssyni, mektarfólki miklu í íslensku tónlistarlífi. Sigríður er ein af fremstu söngkonum landsins og hún og Guðmundur eru saman í Hjaltalín. Guðmundur er jafnframt mikilhæfur upptökustjóri og Sigurður, bróðir hans, er í Hjálmum auk þess að vera sólósöngvari góður, með afbrigðum meira að segja. Þá hafa hann og Sigríður staðið saman að vinsælum jólatónleikum og eiga hvor sína jólaplötuna. Þegar þetta þríeyki kemur saman, hvað getur þá klikkað? Nákvæmlega ekki neitt.

Ábreiður

Góssentíð er ábreiðuplata, efniviðurinn ýmisleg dægurlög, íslensk, þó henni sé reyndar lokað með Cohen-lagi. Platan var tekin upp í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Undanfarnar vikur hafa verið kúffullar af gæðaplötum. Ég segi það því strax, þessi plata er frábær. Einstök eiginlega. Maður er fyrir löngu orðinn góðu vanur frá þessum hópi, en svei mér þá, það er eitthvað alveg sérstakt í gangi hérna.

Platan er lágstemmd, jafnvel nærgætnisleg, og spilamennska öll eitthvað svo næm og falleg. Platan líður um stofuna/eyrun. Eins og þægileg gola, lyftir manni hreinlega. Og þegar Sigríður syngur, hvernig hún sameinar tækni, styrk og fegurð, þá er ekki að spyrja að leikslokum. Sigurður er líka frábær söngvari; það er mýkt og sjarmi í tóninum sem lokkar bæði og laðar. Platan er þannig niðri á jörðinni – í fósturmoldinni – og þessi alíslenski andi sem maður þekkir frá gæðaverkum Mannakorna eður Spilverksins læðist þarna inn. Og vert þú velkominn, íslenski andi!

Lagaval er þá skemmtilega nýstárlegt. Þekkt lög en líka ekki svo þekkt. Byrjað er á „Ó, blessuð vertu sumarsól“ og tónninn þannig glæsilega sleginn. Allt rúllar þetta vel og ég ætla bara að nefna nokkur uppáhöld. „Kossar án vara“, sem er fráleitt þekktasta lag Bubba, er virkilega flott. „Draumaprinsinn“, þessi perla Magnúsar Eiríkssonar, er guðdómlegt og „Valdi skafari“, eftir Spilverkið, er glæsilegt. Það er glæsilegt, af því að Góss flytur það nákvæmlega eins og það er á Bráðabirgðabúgí, og þannig er þetta „unga“ fólk að taka ofan fyrir þessari meistarasmíð. „Eitt lag enn“, Evróvisjónlag Stjórnarinnar, er þá afrekið hérna. Með því að breyta lítið eitt um tón, tosa stemninguna smekklega niður, er þessu lagi (sem er snilld NB) breytt í indælan stofudjass. Og allt þetta er gert kinnroðalaust, það er ekkert hopp eða hí eða kaldhæðni. Það er kannski það sem gerir þessa plötu fyrst og síðast, virðing fyrir viðfangsefninu, hvort sem það er ballaða eftir Bubba eða stuðslagari eftir Stjórnina.

Jákvætt

Ég ruddist fram á Fésbókina fyrir stuttu, í æsingi yfir þessari plötu, og setti þar inn svart/hvíta ljósmynd af bandinu með þeim skilaboðum að hinn alíslenski andi væri þarna yfir um og allt í kring (ég er að endurorða þetta). Og þá er ég að tala um allt þetta jákvæða, sem fylgir því að búa hér. Veðrið sem er svo skemmtilega óákveðið. Þessi ofsalega náttúra okkar, grimm og blíð. Lögin okkar, tungan og verundin. Allt þetta er kjarnað á þessari plötu. Snilld.