Góss er skipuð þeim Guðmundi Óskari, Sigríði Thorlacius og Sigurði Guðmundssyni, mektarfólki miklu í íslensku tónlistarlífi. Sigríður er ein af fremstu söngkonum landsins og hún og Guðmundur eru saman í Hjaltalín. Guðmundur er jafnframt mikilhæfur upptökustjóri og Sigurður, bróðir hans, er í Hjálmum auk þess að vera sólósöngvari góður, með afbrigðum meira að segja. Þá hafa hann og Sigríður staðið saman að vinsælum jólatónleikum og eiga hvor sína jólaplötuna. Þegar þetta þríeyki kemur saman, hvað getur þá klikkað? Nákvæmlega ekki neitt.
Ábreiður
Góssentíð er ábreiðuplata, efniviðurinn ýmisleg dægurlög, íslensk, þó henni sé reyndar lokað með Cohen-lagi. Platan var tekin upp í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Undanfarnar vikur hafa verið kúffullar af gæðaplötum. Ég segi það því strax, þessi plata er frábær. Einstök eiginlega. Maður er fyrir löngu orðinn góðu vanur frá þessum hópi, en svei mér þá, það er eitthvað alveg sérstakt í gangi hérna.
Platan er lágstemmd, jafnvel nærgætnisleg, og spilamennska öll eitthvað svo næm og falleg. Platan líður um stofuna/eyrun. Eins og þægileg gola, lyftir manni hreinlega. Og þegar Sigríður syngur, hvernig hún sameinar tækni, styrk og fegurð, þá er ekki að spyrja að leikslokum. Sigurður er líka frábær söngvari; það er mýkt og sjarmi í tóninum sem lokkar bæði og laðar. Platan er þannig niðri á jörðinni – í fósturmoldinni – og þessi alíslenski andi sem maður þekkir frá gæðaverkum Mannakorna eður Spilverksins læðist þarna inn. Og vert þú velkominn, íslenski andi!