Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einnota plast bannað í Kanada frá 2021

10.06.2019 - 18:33
Mynd með færslu
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Mynd:
Einnota plast og plastumbúðir verða bannaðar í Kanada frá 2021 ef áætlanir Justin Trudeau, forsætisráðherra landsins, ganga eftir. Trudeau segir það vera áskorun við heimsbyggðina alla að hætta notkun plastflaska, röra og plastpoka, sem fylla heimshöfin.

Kanada á einstakt færi á að leiða baráttunni gegn plastmengun í heiminum, sagði Justin Trudeau þegar hann kynnti áætlun sína í dag. Kanada á lengstu strandlínu í heimi og íbúar þar verða þess vegna varir við allt plastið sem skolar á land. Einungis tíu prósent alls plasts í heiminum er endurunnið.

„Þið hafið öll heyrt sögurnar og séð myndirnar,“ sagði Trudeau. „Ef ég á að vera hreinskilinn þá á ég erfitt með að útskýra þetta fyrir börnunum mínum. Hvernig útskýrir maður dauðan hval sem rekur á fjörur heimsins með magann fullan af plastpokum?“

Á hverju ári drepast milljónir fugla og meira en hundrað þúsund sjávarspendýr þegar þau flækjast í eða éta plast. Plastið festist svo í fæðukeðjunni og skilar sér jafnvel sem öragnir í fæðu manna.

Á Íslandi hefur Alþingi samþykkt bann við burðarpokum úr plasti frá og með 2021, en ekki hefur verið gengið svo langt að banna einnota plasthluti á borð við flöskur, rör og hnífapör.