Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Einni heilsugæslu lokað - staðfestum smitum fjölgar

15.03.2020 - 14:41
Mynd: RÚV / RÚV
Heilsugæslan í Mosfellsbæ verður lokuð á morgun vegna COVID-19 smits hjá starfsmanni. Hér á landi hafa nú verið rannsökuð um 1.800 sýni og 171 hafa greinst með veiruna. Formaður Kennarasambandsins hvetur fólk til að huga vel að börnum þegar til röskunar kemur á skólastarfi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna í dag að flestir sem smitaðir eru komu frá skíðasvæðum í Ölpunum. Hins vegar eru um 23% með óþekkta smitleið, en um helmingur smitaðra var búinn að vera í sóttkví. Þórólfur segir það undirstrika að aðgerðir hafa skilað árangri, því annars væru mun fleiri smitaðir.

Þrír eru nú inniliggjandi á Landspítalanum vegna smits og þar af einn á gjörgæslu. Um er að ræða einstaklinga á sextugs- og sjötugsaldri, en tveir hafa verið útskrifaðir sem áður voru inni á spítalanum. Hundrað og þrjátíu starfsmenn Landspítala eru nú í sóttkví og 13 í einangrun, sem veldur töluverðri röskun á starfsemi spítalans en þar laga menn sig að aðstæðum.

Þórólfur varaði við því að reikna út hugsanlegan fjölda sem gæti smitast hér á landi. Ef tölur frá Hubei-héraði í Kína yrðu yfirfærðar á Ísland þá myndu um 30 leggjast á gjörgæslu hér á landi, en 0,1% smitaðist í Hubei-héraði og 10% þeirra urðu alvarlega veik.

„Menn hafa verið að reikna mjög undarlega út og það er rétt að halda þessu til haga svo ekki séu skapaðar óþarfa áhyggjur og tortryggni,“ sagði Þórólfur.

Fólk hvatt til að leita upplýsinga á netinu

Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sagði að mikið álag hefði verið á símkerfinu og netspjalli heilsugæslunnar undanfarna daga. Hann biðlaði til fólks að leita upplýsinga á vefsíðum sóttvarnalæknis og COVID.is áður en haft er samband, þar sem fjölmörg svör megi finna á þeim síðum. Þá eru þeir sem eru slappir hvattir til að vera heima, en þeir sem eru orðnir mjög veikir þurfi að sjálfsögðu að hafa samband.

Óskar sagði að einn starfsmaður heilsugæslunnar í Mosfellsbæ væri sýktur og því verði stöðin lokuð í það minnsta á morgun. Þeir sem þurfi að leita á stöðina verði sinnt á heilsugæslunum í Árbæ og í Grafarvogi.

Ástæða til að fylgjast með leikjum barna

Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambandsins, sagði ástæðu til þess að fylgjast sérstaklega vel með leikjum barna þar sem þar birtust oft hugsanir sem þau geta ekki komið í orð. 

Hann ítrekaði að vegna samkomubanns og röskunar skólastarfs sé mikilvægt að viðhalda rækt barna. Það sem skólastjórnendur vilji þó ekki að gerist er að börn séu send heim til ömmu og afa, enda er það mun viðkvæmari hópur en börnin. Biðlað er til atvinnurekenda að sýna sveigjanlega og starfsmenn sem geti unnið heima verði gert kleift að gera það.

Samkomubann tekur gildi á miðnætti og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sagði að ekki yrði stór breyting þegar það tekur gildi. Tímasetningin sé bara valin sem hluti af ferlinu. Ekki verði stíft eftirlit með banninu, heldur verði það tæklað saman sem þjóðfélag. Hann telur að samfélagið eigi ekki eftir að líða það ef einhver ætlar vísvitandi að brjóta gegn banninu, en samhugurinn í þjóðfélaginu komi okkur langt. 

Tölur um fjölda smitaðra var uppfærð klukkan 16. Á fundinum kom fram að 163 staðfest smit hefðu greinst hér á landi, en tveimur tímum síðar var talan komin upp í 171.