Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einn í haldi eftir eldsvoða á Akureyri

06.11.2019 - 11:05
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Einn er í haldi lögreglu eftir að eldur kviknaði í gömlu húsi í Sandgerðisbótinni á Akureyri í nótt. Eldsupptök eru í rannsókn. Tveir voru fluttir á slysadeild og er húsið að öllum líkindum ónýtt.

Í húsinu sem er skammt frá smábátahöfninni á Akureyri eru búsetuúrræði á vegum bæjarins en húsið er mjög gamalt. Að sögn Ólafs Stefánssonar, slökkviliðsstjóra á Akureyri, var tilkynnt um eld um klukkan hálf tvö í nótt. Karl og kona sem búa á efri hæð hússins hringdu í Neyðarlínuna þegar þau urðu vör við eld á neðri hæðinni. Þau komu sér sjálf út og voru flutt á bráðamóttöku til skoðunar. Líðan þeirra er eftir atvikum góð, að sögn Ólafs.

Slökkvistarf gekk ágætlega en rífa þurfti klæðingu innan úr húsinu til að slökkva í glæðum. Húsið er að sögn Ólafs líklega ónýtt. Íbúi á neðri hæðinni, þar sem eldurinn kviknaði, var handtekinn í nótt og er enn í haldi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri er málið í rannsókn og verður maðurinn yfirheyrður seinna í dag. Lögreglan vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. 

Mynd með færslu
Húsið er búsetuúrræði á vegum bæjarins