Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Einn af hverjum fimm ferðamönnum nota Airbnb

29.02.2016 - 11:24
Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Einn af hverjum fimm ferðamönnum keypti gistingu á höfuðborgarsvæðinu í gegn leigumiðlunina Airbnb árið 2015. Hæst var hlutfallið í ágúst 2015 þegar 33% af seldum gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu var í gegn Airbnb. Í lok nóvember 2015 voru 2.681 gistirými skráð á Airbnb í Reykjavík en það er 126% aukning frá því í desember 2014 þegar fjöldinn var 1.188.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um stöðu og framtíðarhorfur ferðaþjónustunnar hér á landi. Bankinn spáir til að mynda 29% fjölgun ferðamanna milli ára. Hingað komi því rúmlega 1,6 milljónir ferðamanna.

Framboð af gistirými í deilihagkerfinu svokallaða hefur vaxið gríðarlega. 22 þúsund fleiri gistinætur seldust í gegnum Airbnb í október 2015 en í október 2014. Það er aukning upp á 225%. Á sama tímabili nam aukning á seldum gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu 29%.

Í skýrslunni segir að á 12 mánaða tímabili, frá nóvember 2014, hafi heildartekjur aðila sem eru með skráð gistirými á Airbnb verið 2,2 milljarðar króna eða 15% af heildartekjum seldra gistinátta á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur í skýrslunni að 290 ný hótelherbergi komi á markað á árinu 2016 en ólíklegt er talið að sú aukning anni eftirspurn. Þrátt fyrir að fjölgun hótelherbergja hafi verið sú mesta frá upphafi árið 2015 eða 872 talsins.

Fjöldi seldra gistinótta á öllum gististöðum á landinu var um 6,67 milljónir á árinu 2015 samkvæmt skýrslunni. Það er aukning um 21,5% frá 2014.