Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Einhyrningur slapp við slátrun

26.04.2017 - 11:28
Mynd: RÚV / RÚV
„Við köllum hann bara einhyrninginn. Það orð þýðir allt annað í ensku en við erum með sama nafn yfir þetta hér á Íslandi,“ segir Erla Þórey Ólafsdóttir, bóndi í Hraunkoti í Skaftárhreppi um einhyrndan veturgamlan hrút á bænum. „Ég hef aldrei séð svona og fólkið í kringum mig ekki heldur.“

Hjónin í Hraunkoti eru með 200 fjár á bænum. Hrúturinn fæddist síðasta vor og þá sást strax að hornin væru öðruvísi en vanalegt er. „Þetta sást strax að hornin voru samvaxin,“ segir Erla, sem kann engar skýringar á þessu. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Erla segir að einhyrningurinn hafi komið seint af fjalli. „Hann kom rétt fyrir jól til byggða,“ segir Erla. „Það er ástæðan fyrir því að hann er enn á lífi,“ segir hún. „Hann kom eftir hrútafellingadag, sem var 31.október.“ Eftir þann dag fæst sama og ekkert fyrir kjötið af hrútum, því bragðið breytist þegar þeir ná ákveðnum aldri. Hrútabragð, er orðið sem Erla notar.

Aðspurð segir hún að ekkert sé athugavert við hrútinn að öðru leyti. „Hann er ekkert holdmikill en hann er líklega þannig frá náttúrunnar hendi.“

Landinn heimsótti Erlu og Bjarna Bjarnason í Hraunkot á sunnudag þar sem myndskeiðið hér fyrir ofan var tekið. Rætt var við Erlu í Morgunblaðinu nýverið um hrútinn og hefur umfjöllunin vakið athygli víða um heim. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV