Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einbúar: Hefur þeim fjölgað hér?

Mynd: Shirley B / Freeimages
Frelsi til að gera hlutina eftir eigin höfði án málamiðlana, hamingjan sem býr í því að vera sjálfum sér nægur. Það fylgja því ýmsir kostir að búa einn en það er dýrt og það getur verið einmanalegt. Spegillinn fjallar næstu daga um stöðu einbúa á Íslandi - í þessum fyrsta pistli skoðum við tölfræðina. Fjölgar í hópi þeirra sem búa einir? 

Þriðjungur Dana býr einn

Þannig er þróunin í Danmörku, Noregi, Bretlandi, Bandaríkjunum og fleiri löndum sem við berum okkur saman við. Stöðugt fleiri búa einir. Líklega heldur þessi þróun áfram því vestrænar þjóðir eru að eldast og fólk eignast færri börn en áður. Það er lögð áhersla á að eldra fólk búi heima eins lengi og það mögulega getur.

Þriðjungur Dana býr einn. Í Bretlandi er hlutfallið lægra en stígandi - árið 2002 bjuggu 6 % Breta á aldrinum 50 til 64 ára einir, árið 2017 var hlutfallið komið upp í 13%.

Vinnuaðstaða heimavinnandi starfskrafts.
 Mynd: Pixabay
Mörgum finnst gott að búa einir.

Áhyggjuefni? 

Það er jákvætt að fólk hafi ráð á því að búa eitt og líklega hafa fordómarnir minnkað, það þykir gamaldags að tala um piparjúnkur eða sérvitringa. Margir hafa samt áhyggjur af þróuninni. Einmanaleiki er kominn ofarlega á forgangslista lýðsheilsustofnana víða um heim og breskar og danskar rannsóknir sýna að það er ekki bara kostnaðurinn við að standa einn straum af heimilishaldinu sem íþyngir fólki sem býr eitt, það segist líka óhamingjusamara og kvíðnara en fólk sem býr með öðrum. Ekki endilega mikið óhamingjusamara en samt svo um munaði. 

Svo er það heilsan. Rannsóknir benda til þess að fólk sem býr eitt eigi frekar á hættu að glíma við ýmsa heilsukvilla.  „Finndu þér einhvern til að búa með, hvað sem þú gerir ekki flytja einn inn í tveggja herbergja íbúð í blokk, ekki láta samskipti þín takmarkast við það að bjóða nágrönnum sem þú mætir í stigaganginum góðan dag. Að gera það getur kostað þig lífið.“ Svona hefst grein í danska blaðinu Berlingske. Þar kemur fram að karlmenn sem búa einir séu 36% líklegri til að deyja af völdum hjartasjúkdóms. Nokkur munur var á áhættu fólks eftir stöðu, þannig voru karlkyns einbúar með mikla menntun og í stjórnunarstöðum ekki líklegri en aðrir til að fá hjartasjúkdóma.

Sumir una sér mjög vel einir. Það að búa einn er ekki endilega ávísun á einmanaleika en það er eitt af því sem getur ýtt undir einmanaleika, aðrir þættir eru til dæmis heilsubrestir og rýrt tengslanet. 

Einsemd og heilsa

Í fyrra stofnaði Theresa May, þáverandi forsætisráðherra, Bretlands, ráðuneyti einmanaleikans - og breska ríkisútvarpið stóð fyrir einmanaleikakönnun meðal borgara. Það er talað um að einmanaleiki sé álíka hættulegur og reykingar eða offita. Þetta með einmanaleika og heilsu er ekki alveg klippt og skorið - er það einmanaleikinn sjálfur sem veldur heilsubresti og skertum lífslíkum eða er fólk sem er heilsulaust fyrir líklegra til að glíma við einmanaleika? Er fólk sem er einmana líklegra til að borða óhollan mat eða lifa kyrrsetulífi? 

Þriðjungur fólks ekki í sambúð eða með börn

Þeim fjölgar sem búa einir í nágrannalöndum okkar en hvernig er staðan hér. Tölur Hagstofunnar sýna að á síðustu áratugum hefur fjölgað hratt í hópi einstaklinga sem ekki tilheyra hefðbundnum kjarnafjölskyldum. Hlýtur það ekki að þýða að fleiri búi einir? „Þær tölur sem Hagstofan hefur gefið út benda til þess, frá árinu 2014 hefur fjölgað um 20% í hópi þeirra sem ekki eru í fjölskyldusambandi, það er að segja eiga hvorki maka né börn undir átján ára aldri,“ segir Ómar Harðarson.  Um 120 þúsund manns, þriðjungur þjóðarinnar telst tilheyra einstaklingsfjölskyldu. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Ómar Harðarson

Í gögnum Hagstofunnar er unnið með sex fjölskyldugerðir: 

  • Einstaklingar.
  • Hjónaband án barna.
  • Hjónaband með börnum.
  • Óvígð sambúð án barna.
  • Óvígð sambúð með börnum.
  • Karl með börn.
  • Kona með börn.

Gallinn við þessar tölur um mannfjölda í kjarnafjölskyldum Hagstofunnar er sá að þær taka ekki til þess hvernig fólk býr heldur einungis þess hvort það er í sambúð, vígðri eða óvígðri og hvort það á börn undir átján ára aldri.Þannig flokkast ungmenni sem eru orðin átján og búa enn í foreldrahúsum sem einstaklingar, ekki sem hluti af fjölskyldu. Fjölgunina í þessum hópi má kannski að litlu leyti rekja til þess að ungt fólk búi lengur heima en fyrst og fremst skýrist þetta af þeim mikla fjölda innflytjenda sem komið hefur hingað. „Að öllum líkindum, án þess að ég hafi grandskoðað það, er þetta vegna fjölgunar á erlendum ríkisborgurum sem hafa komið hingað í stríðum straumum síðan 2014,“ segir Ómar. Þessir innflytjendur búa ekkert endilega einir þó það eigi sjálfsagt við um marga. 

Ómar segir stefnt að því hjá Hagstofunni að breyta aðferðafræði þannig að fólk verði flokkað eftir því hvernig það býr en ekki eftir ákveðnum fjölskyldutengslum. 

Engar grundvallar breytingar á heimilisgerð

Tölur um heimili eftir gerð og stærð gefa gleggri mynd af því hversu margir búa einir, gallinn við þær er sá að þær eru orðnar átta ára gamlar, voru teknar saman í manntalinu árið 2011. Þá taldist þriðja hvert heimili á Íslandi einmenningsheimili og 15% fullorðins fólks bjó eitt. 
Ef horft er til fólks á aldrinum 30 til 70 ára var hlutfallið 24%. Næsta manntal Hagstofunnar kemur út árið 2021. 

Ómar segir breytingar á þessu sviði seigfljótandi. Fjölskyldumynstrið virðist lítið hafa breyst en það hafi fækkað á fjölskylduheimilum, það eru færri börn. „VIð erum líka með Lífskjararannsóknina sem hefur verið gerð reglulega síðan 2004. Ég get ekki á þessari stundu fullyrt hvernig þetta skiptist nákvæmlega samkvæmt henni en það sem ég hef séð bendir ekki til þess að það hafi orðið nein grundvallarbreyting á gerð heimila á Íslandi nema í þá áttina að fólki hefur fækkað á hverju heimili.“ 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV