Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Einbúar: „Aldrei fengið hrærivél í jólagjöf“

Mynd: RÚV / RÚV
„Það er eins og það sé ekki alveg litið á þetta sem alvöru heimili og svolítið horft á þetta sem tímabundið ástand þangað til ég finn mér nú mann og byrja að búa,“ þetta segir kona sem býr ein. Spegillinn hefur síðustu daga fjallað um stöðu einbúa. Það fylgja því ýmsir kostir að búa einn, svo sem frelsi og fullkomin yfirráð yfir fjarstýringunni, en það getur líka verið einmanalegt og fólki sem býr eitt finnst fjölskyldusamfélagið Ísland stundum ekki gera ráð fyrir sér.

Í pistli gærdagsins ræddu þau Bjargey Anna Guðbrandsdóttir, Sighvatur Ívarsson, Jón Arnar Magnússon og Elín Björg Ragnarsdóttir um óhagræðið sem getur falist í því að reka heimili fyrir einn. Í dag ræða þau félagslegu og andlegu hliðina. Spegillinn hafði upp á þeim með því að setja fyrirspurn á Facebook-síðu vinsæls fjallgönguhóps, Vesens og vergangs og vakti innleggið mikil viðbrögð. Fjöldi fólks deildi reynslu sinni og bauð sig fram í viðtal.

Var orðin þreytt á að vera með meðleigjendur

„Ég er búin að búa ein í fimmtán eða sextán ár, ég leigði um tíma með systur minni og svo með vinkonum og ég man að þegar ég bjó með síðasta sambýlingi mínum og mjög góðri vinkonu, þá fundum  við einhvern veginn báðar að okkur langaði að fara að búa einar. Það kom bara einhver svona tíma þar sem maður nennti ekki lengur að vera með meðleigjendur. Þetta virkað betur á meðan maður var í skóla en þarna vorum við báðar komnar í vinnu og þá langaði okkur meira að vera einar í heimili,“ segir Bjargey Anna Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri í Háskóla Íslands. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Bjargey Anna.

Gaman að fá gesti en líka gott þegar þeir fara

Bjargey segist kunna því ofsalega vel að búa ein. „Auðvitað er það stundum einmanalegt en svona félagslega finnst mér það gott. Þegar mig vantar félagsskap býð ég fólki í heimsókn eða fer eitthvert út. Ég á stóra fjölskyldu og ég finn það stundum þegar eitthvert systkina minna kemur og gistir hjá mér með nokkur börn, ég bý náttúrulega í það lítilli íbúð, að þá er afskaplega gaman að fá þau en líka rosa þægilegt þegar þau fara, þá fær maður pínu frið. 

„Hef sömu þörf fyrir félagsskap og nánd og aðrir“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sighvatur Ívarsson.

Sighvatur Ívarsson er 52 ára og búinn að búa einn meira eða minna í átján ár. „Það hefur auðvitað sína kosti og galla en ég hef alltaf verið svolítið sjálfum mér nægur en þó ég sé það þá hef ég alveg sömu þörf og allir aðrir fyrir félagsskap og nánd og snertingu, að elska og vera elskaður.“ Þetta geti verið einmanalegt á köflum. „Maður á alveg stundir þar sem maður er mjög einmana og langar í félagsskap þó maður vilji kannski ekki vera í hvaða félagsskap sem er. Ég er samt búin að vera svo lengi einn að ég er orðinn svolítið sjóaður og þegar ég upplifi svona stundir veit ég hvað ég á að gera. Þetta er sjálfsagt erfiðara fyrir þá sem eru yngri, hafa búið einir í styttri tíma eða eru vanir því að vera í samböndum eða foreldrahúsum.“

Fólk óttist ærandi þögnina og sársaukann innra með sér

Sighvatur telur að það hafi fjölgað í hópi þeirra sem búa einir. Það er raunin víða í nágrannalöndum okkar. Spegillinn fjallaði um tölfræðina fyrr í vikunni, það eru ekki til nýjar tölur en þegar Hagstofan tók síðast manntal árið 2011 kom í ljós að 15% þjóðarinnar bjuggu ein. 

Mynd með færslu
 Mynd: George Dolgikh - Pexels
Sighvatur telur að fólk sé orðið aftengdara sjálfu sér og að þess vegna hafi fjölgað í hópi þeirra sem búa einir.

Sighvatur telur að fleiri séu einir vegna aftengingar í samfélaginu, aftengingar sem birtist í því að fólk leiti út á við frekar en inn á við. „Ég stunda fundi hjá Tólf spora samtökum og í gegnum það hef ég tekið eftir því að fólk er ofsalega einangrað og áttar sig jafnvel ekki á því hversu einangrað það er. Að eiga tíma með sjálfum þér, þar sem þú ert ekki í símanum, ekki að horfa á Netflix, ekki að lesa bók, bara þar sem þú ert einn með sjálfum þér og finnur fyrir sjálfum þér. Ég held að þetta sé eitthvað sem flestallir þessir einstaklingar óttast meira en allt annað því þögnin verður svo ærandi og þú upplifir kannski allan sársaukann og einmanaleikann sem er inni í þér en það er akkúrat það sem þú þarft að gera til að ná þessari tengingu við sjálfan þig. Þú þarft að fara í gegnum þetta ferli. Ég er búinn að vera í svona sjálfsvinnu og Tólf spora vinnu í tuttugu ár og er rosalega þakklátur fyrir það því fyrir vikið er ég mjög vel tengdur sjálfum mér, ég hef auðvitað mína bresti og er beyglaður eins og allir aðrir er ekki fullkomnari en neinn annar.“ 

Slæmt að draga úr mannlega þættinum

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjálfsagreiðslukassa er að finna í flestum stórmörkuðum.

Sighvatur segir aukna sjálfvirknivæðingu og minni mannlega þjónustu, til dæmis í verslunum, geta ýtt undir aftengingu og einangrun, það þurfi allir á öðru fólki að halda, enginn komist einn og hjálparlaust í gegnum lífið. „Við þurfum á hvert öðru að halda á öllum sviðum lífsins.“ 

Fordómar í eigin huga

Elín Björg Ragnarsdóttir skildi fyrir fjórtán árum, bjó fyrst með syni sínum en nú er hann floginn úr hreiðrinu. Hún hefur því verið ein í heimili síðasta árið. „Það tekur stundum á að búa einn en þetta er líka ofsalega gaman. Það eru engin rifrildi um fjarstýringuna af sjónvarpinu og maður stjórnar sínum tíma algjörlega, getur gert það sem manni dettur í hug án þess að taka tillit til eins eða neins. Hins vegar fann ég það fyrst eftir að ég varð ein að fara í bíó einn, að fara einn á ball eða ferðast, ég held að það hafi fyrst og fremst verið fordómar í eigin huga, að mér fannst þetta erfitt. Í dag finnst mér þetta ekkert mál og oft flækist það fyrir að vera með aðra með, þá getur maður ekki hlaupið á eftir öllum hugmyndum sem maður fær. Auðvitað er þetta stundum einmanalegt en fyrir nokkrum árum fór ég að hugleiða þetta, að ef ég get ekki verið hamingjusöm ein með sjálfri mér getur enginn annar gert mig hamingjusama þannig að ég leitaði bara svolítið inn á við og hef bara aldrei verið hamingjusamari. 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Elín Björg Ragnarsdóttir, lögfræðingur.

Gott að þurfa ekki að fá leyfi frá foreldrum

Jón Arnar Magnússon, forritari, nýtur þess að búa einn, vera með sitt eigið eldhús, sitt eigið baðherbergi. „Það er annað hvort að búa einn eða í foreldrahúsum, þegar ég var búinn að búa hjá foreldrum mínum í mörg ár þá vildi ég verða sjálfstæður, ég vildi geta boðið erlendum vinum að koma í heimsókn og gista í einhverjar nætur án þess að fá leyfi frá einhverjum öðrum. Ef þú býrð hjá foreldrum þá þarftu að fara eftir þeirra húsreglum, taka tillit til þeirra.“

„Á ég að hringja í hundrað manns í símaskránni?“ 

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Gott að geta fengið erlenda vini í heimsókn án þess að þurfa að biðja um leyfi.

Hann segist ekki finna fyrir einmanaleika þó hann búi einn og minnir á að það er munur á því að vera einn og því að vera einmana. „Það er fullt af fólki í kringum mig sem ég spjalla við og stundum er bara gott að kúpla sig út úr hversdagslífinu.“ Hann hefur þó rekið sig á hindranir. „Þú hefur allt í einu áhuga á því að læra samkvæmisdansa, þú ert einn, skólastjórinn sagði við mig, þú verður að koma með dansfélaga, hvað þá? Á ég að hringja í hundrað manns í símaskránni? Það er enginn heima hjá mér sem hefur áhuga á dansi.“

Mynd með færslu
 Mynd: pxhere
Krafa um dansfélaga reyndist fyrirstaða.

Fjölskyldusamfélagið Ísland

Stundum er talað um að Ísland sé fjölskyldusamfélag, er skilningur á því að fólk velji að búa eitt?  Jón Arnar segir að skilningurinn sé meiri í öðrum samfélögum sem hann hefur kynnst, hann bjó í Danmörku um tíma. „Það er pressa hér á Íslandi að eignast fjölskyldu en þeir sem velja að búa einir og eru hamingjusamari þannig, samfélagið ætti að taka því fagnandi.“

Mynd með færslu
 Mynd:  - Pexels
Kjarnafjölskylda heldur jól.

Togstreita tengd gjöfum og skipan í herbergi

Á umræðuþræðinum á Facebook-hópi gönguhópsins Vesens og vergangs nefndu sumir að það gæti komið upp togstreita í samskiptum, til dæmis innan fjölskyldunnar eða vinahópsins. Kona sem tók þátt í umræðunni sagðist vera hætt að fara í sumarbústaðaferðir með pörum því hún fengi alltaf versta herbergið, einhvers konar kústaskáp. Bjargey segist kannast við svona aðstæður. „Þegar við systkinin erum öll í sveitinni hjá pabba og mömmu þá er forgangur í herbergi, það var nú rifrildi þarna ein jólin en síðan hefur reglan verið sú að þau sem eru með yngstu börnin fá besta herbergið. Ég er alltaf neðarlega í goggunarröðinni og gert grín að því að ég sofi bara hjá hundunum,“ segir Bjargey Anna og hlær.

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Í bústaðnum.

Hún hefur líka upplifað ákveðna togstreitu í vinahópnum þegar kemur að því að gefa sameiginlegar gjafir. „Á þessi staka að gefa jafnmikið og hjónin og pörin?“ 

„Fólk tekur síður eftir því að ég sé einn“

Sighvatur kannast við að hafa fengið skot frá vinum og ættingjum. „Hvort það sé ekki kominn tími til að finna konu og stofna heimili. Ég á heimili þannig að ég þarf ekki að stofna það, ég hef alltaf verið svo virkur, hvort sem er í vinnu eða verkefnum eða gera eitthvað, hjálpa frænkum og frændum, vinum og kunningjum. Ég hef alltaf verið svo virkur að fólk tekur síður eftir því að ég sé einn.“

Elín Björg segir að fyrst eftir að hún skildi hafi borið á þessu en nú sé fólk búið að átta sig á því að hún sé ekki í neinu millibilsástandi.  „Það var stundum vandamál í vina- og kunningjahópnum, að bjóða mér einni í matarboð. Oftar en ekki kom einhver einhleypur vinur líka til að við gætum verið saman. Það var alltaf verið að kynna mig fyrir einhverjum einhleypum vinum og mér fannst þetta svolítið pínlegt því maður passar ekki inn í hjónasamfélagið - en þetta er held ég alveg búið í dag.“ 

Finnst sitt heimili ekki alltaf passa inn

Mynd með færslu
 Mynd: maxpixel
Hvenær er fólk byrjað að búa?

Bjargey segir ekkert sérstaklega gert ráð fyrir því að fólk búi eitt. „Það er frekar gert ráð fyrir því að ég eigi alltaf eftir að fara að búa með einhverjum og ef maður hugsar til baka og svona í kringum mig, um systkini mín til dæmis. Þegar þau voru komin með fyrsta kærastann eða kærustuna þá fengu þau í jólagjöf eitthvað svona heimilisdót því þau voru að byrja að búa. Ég er náttúrulega búinn að búa í mörg ár en ég hef aldrei fengið hrærivél eða eitthvað svoleiðis. Það er eins og það sé ekki alveg litið á þetta sem heimili og svolítið eins og það sé horft á þetta sem tímabundið ástand þangað til ég finn mér nú mann og fer að halda alvöru heimili. Þetta hefur kannski breyst að einhverju leyti, viðhorf fjölskyldunnar og fólks í kringum mann, fólki finnst  alveg ásættanlegt að búa einn án þess að vera mjög mikill sérvitringur en varðandi umræðuna í þjóðfélaginu, eins og var í kringum leiðréttinguna og þegar endalaust er verið að tala um heimilin í landinu þá finnst mér ég og mitt heimili ekki passa inn í þá umræðu. Það er eins og það sé alltaf gert ráð fyrir kjarnafjölskyldunni; pabbi, mamma, 2,1 barn og hundur.